Innlent

Samherji kærir ellefu starfsmenn RÚV til siðanefndar vegna ummæla á samfélagsmiðlum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Vísir/vilhelm

Samherji hefur kært ellefu frétta- og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins fyrir siðanefnd vegna ummæla þeirra um málefni Samherja á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samherja.

Kveikur, fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins, tók starfsemi Samherja í Namibíu til umfjöllunar í nóvember 2019. Í kæru til siðanefndar Ríkisútvarpsins, sem Samherji birtir á vef sínum í dag, heldur fyrirtækið því fram að ellefu starfsmenn Ríkisútvarpsins hafi „um langa hríð“ tekið opinberlega afstöðu til hins svokallaða Namibíumáls Samherja, sem og annarra mála er varða fyrirtækið. 

Kæran nú snýr að færslum umræddra starfsmanna á samfélagsmiðlum á tímabilinu nóvember 2019 til ágúst 2020. Telur Samherji að með færslunum hafi starfsmennirnir gerst brotlegir við siðareglur Ríkisútvarpsins, einkum reglu er hljóðar svo:

Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.

Segja um „samantekin ráð“ að ræða

Starfsmennirnir ellefu sem Samherji kærir fyrir siðanefnd eru Aðalsteinn Kjartansson og Helgi Seljan, fréttamenn sem báðir unnu að umfjöllun Kveiks um Samherja, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri, dagskrárgerðarmennirnir Sigmar Guðmundsson og Snærós Sindradóttir og fréttamennirnir Freyr Gígja Gunnarsson, Lára Ómarsdóttir, Stígur Helgason, Sunna Valgerðardóttir og Tryggvi Aðalbjörnsson.

Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson fréttamenn unnu að umfjöllun Kveiks um málefni Samherja í Namibíu. Þeir eru á meðal starfsmannanna ellefu sem Samherji kærir nú fyrir siðanefnd RÚV.VÍSIR/VILHELM

Færslur starfsmannanna sem Samherji telur brot á siðareglum Ríkisútvarpsins eru útlistaðar í kærunni, sem nálgast má hér. Færslurnar taka til ýmissa vendinga í máli Samherja og samskipta fyrirtækisins við starfsmenn Ríkisútvarpsins. Þannig er í mörgum tilvikum um að ræða viðbrögð starfsmannanna við myndbandi sem Samherji birti nú í ágúst, þar sem fyrirtækið beinir spjótum sínum sérstaklega að Helga Seljan.

Í yfirlýsingu Samherja um málið leiðir Samherji að því líkum að um „samantekin ráð“ starfsmannanna hafi verið að ræða þar sem margar af færslunum hafi verið birtar „því sem næst samtímis“.

Haft er eftir Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja í tilkynningu fyrirtækisins að hjá Ríkisútvarpinu virðist „hópur manna“ hafa haft „samantekin ráð um að skaða orðspor Samherja“. Af þessu sé augljóst að Samherji eigi „engan möguleika á því að fá hlutlausa umfjöllun hjá Ríkisútvarpinu“.

Ekki hefur náðst í Stefán Eiríksson útvarpsstjóra vegna málsins í dag.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×