Fótbolti

Sara Björk: Stolt að vera Íslendingur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir sátt með Meistaradeildarbikarinn á myndini sem hún birti á Instagram síðu sinni.
Sara Björk Gunnarsdóttir sátt með Meistaradeildarbikarinn á myndini sem hún birti á Instagram síðu sinni. Mynd/Instagram

Sara Björk Gunnarsdóttir er þakklát fyrir allar kveðjurnar sem hún fékk eftir að hún vann Meistaradeildina með Lyon.

Sara Björk Gunnarsdóttir birti skemmtilega mynd af sér á Instagram þar sem hún situr með Meistaradeildarbikarinn á Anoeta leikvanginum í San Sebastián.

Sara Björk Gunnarsdóttir varð á sunnudaginn fyrsta íslenska konan til að vinna Meistaradeildina og fyrsti Íslendingurinn sem spilar og skorar fyrir sigurlið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Sara Björk innsiglaði 3-1 sigur Lyon með því að skora þriðja markið á 88. mínútu leiksins en markið skoraði hún á móti sínum gömlu félögum í Wolfsburg.

Afrek Söru hefur vakið mikla athygli á Íslandi og hefur hún fengið margar kveðjur, bæði persónulega sem og á samfélagsmiðlum. Hún þakkaði fyrir þær á Instagram.

„Vá takk fyrir allar fallegu kveðjurnar! Litla Ísland segja þeir,“ skrifaði Sara Björk á Instagram síðu sína.

„Þessi er titill er meðal annars tileinkaður til allra fótboltastelpna og stráka sem eiga sér þann draum um að komast eins langt og þeim dreymir um!,“ skrifaði Sara Björk

„Það eru engin takmörk! Stolt að vera Íslendingur,“ skrifaði Sara Björk.

Sara Björk hefur náð lengra en nokkur önnur íslensk knattspyrnukona og verður vonandi fyrirmyndin sem mun hjálpa íslensku þjóðinni að eignast fullt af flottum knattspyrnukonum til viðbótar.

Meistaradeildartitilinn var fjórtándi stóri titill Söru sem atvinnumaður í Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi þar af fjórði titilinn á árinu 2020.

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur einnig náð því að spila 148 leiki fyrir íslensku landsliðin þar af 131 fyrir íslenska A-landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×