Innlent

Gestir á kaffistofunni þakklátir fyrir að fá að borða þrátt fyrir samkomubann

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Gestir kaffistofu Samhjálpar eru afar þakklátir fyrir að fá alltaf að borða þrátt fyrir samkomubann. Framkvæmdastjóri Samhjálpar segir að þó svo að reksturinn hafi þyngst vegna faraldursins komi ekki til greina að hætta að gefa fátæku fólki mat.

Kaffistofa Samhjálpar hefur verið með opið í gegn um allan faraldurinn. Þegar smitum hefur fjölgað hefur sá háttur verið hafður á að fólk má ekki borða á staðnum en getur þó sótt sér matarbakka. Valdimar Þór Svavarsson, framkvæmdastjóri Samhjálpar segir að þá vanti félagsskapinn. 

„Að ganga inn í kærleiksríkt andrúmsloft og fá góðar viðtökur. Hér kynnist fólk og í mörgum tilvikum er þetta eini staðurinn sem sumir fara á til að hitta aðra og tala saman,“ segir Valdimar. 

Eins og staðan er í dag sé þess gætt að ekki séu fleiri en hundrað í einu en að jafnaði koma um 160 til 180 manns á kaffistofuna á dag. Það hafi þó fækkað í hópnum í faraldrinum. Starfsfólk gæti þess að fjarlægðarmörk séu virt.

„Við gerðum það að skyldu að hér ættu allir að þvo á sér hendurnar og við höfum verið með spritt og aukið þrif á staðnum,“ segir Valdimar. 

Georg Jónasson hefur verið reglulegur gestur á kaffistofunni í um þrjú ár. Hann er mjög þakklátur því að Kaffistofan hafi verið opin í gegn um allann faraldurinn. 

Hefur þú einhvern tímann ekki þorað að mæta, til dæmis þegar smitin voru mest? „Nei, þeir sem koma hingað þurfa að borða. Þeir eru svangir,“ segir Georg. 

Rekstur Samhjálpar hefur þyngst í faraldrinum en Valdimar segir að það komi ekki til greina að hætta að gefa fólki mat. „Það er að berast minna af mat af ýmsum ástæðum. Mörg mötuneyti hafa til dæmis bara hætt út af Covid,“ segir Valdimar sem hvetur alla sem geta að styrkja Samhjálp með matargjöfum.

Aðrir gestir samhjálpar sem fréttastofa ræddi við eru afar þakklátir fyrir að fá að borða þrátt fyrir samkomubann. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×