Innlent

Stór skjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skjálftinn varð austast í Fagradalsfjalli um 10 kílómetrum norðaustur af Grindavík samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Skjálftinn varð austast í Fagradalsfjalli um 10 kílómetrum norðaustur af Grindavík samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Uppfært 16:56: Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands var skjálftinn 4,2 að stærð og varð hann austast í Fagradalsfjalli um 10 kílómetrum norðaustur af Grindavík.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu fundu fyrir vænum hristingi um korter yfir fjögur. Fréttastofu hafa borist símtöl og greinilegt að mjög margir hafa orðið skjálftans varir.

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að stærð skjálftans, sjálfvirkt mat, hafi verið 4,6 og upptök séu um 2,4 kílómetra suðaustur af Keili.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að verið sé að fara yfir skjálftann. Hann sé líklega eitthvað um og yfir 4 að stærð.

„Við heyrðum strax frá fólki í Grindavík sem fann náttúrulega fyrir honum. Hlutir í hillum hristust og marraði í veggjum. Þessi er aðeins stærri en sá fyrr í dag,“ segir Einar Bessi.

Virknin er líklega af völdum spennubreytinga vegna endurtekinna kvikuinnskota á Reykjanesskaga sem hófst í lok janúar á þessu ári, að sögn Einars.

Von er á tilkynningu með frekari upplýsingum fljótlega.

Klukkan 13:43 varð annar skjálfti 3,7 að stærð frá Grindavík. Skjálftinn fannst víða á Reykjanesskaga, á höfuðborgarsvæðinu og alveg norður á Akranes.

Mikil skjálftavirkni er á svæðinu eins og sjá má í skjálftatöflu á vef Veðurstofunnar.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að skjálftinn hafi orðið 2,7 kílómetra austur af Fagradalsfjalli eða um tíu kílómetrum norðaustur af Grindavík. Skjálftahrina hefur verið í gangi á svæðinu, en klukkan 7:10 í morgun varð skjálfti 2,8 að stærð á sömu slóðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×