Erlent

600 þúsund manns gert að flýja undan Láru

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Galveston undirbúa sig fyrir Láru.
Íbúar Galveston undirbúa sig fyrir Láru. AP/Jennifer Reynolds

Yfirvöld Í Bandaríkjunum hafa gert sex hundruð þúsund manns að yfirgefa heimili sín vegna fellibylsins Láru sem stefnir hraðbyr að ströndum Texas og Louisiana. Búist er við sterkum vindi og miklum flóðum. Í Louisiana spá veðurfræðingar að sjávarstaða geti hækkað um allt að fjóra metra. Heilu samfélögin geti ferið á kaf.

Ofan á sjávarflóð er búist við allt að 38 sentímetra rigningu í Louisiana.

Lára hefur þegar valdið miklu tjóni á Hispaniola þar sem 23 dóu. Tuttugu í Haítí og þrír í Dóminíska lýðveldinu.

Búist er við því að Lára safni styrk áður en hún nær landi og að vindhraði fellibylsins fari úr 40 m/s í 54 á næsta sólarhring, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

John Bel Edwards, ríkisstjóri Louisiana, segir útlit fyrir að Lára verði eins og Ríta var fyrir fimmtán árum síðan. Sá fellibylur olli gífurlegum skemmdum í ríkinu.

„Það verða mikil flóð á stöðum sem eru ekki vanir þeim,“ sagði Edwards.

Mögulegt er að fleirum gert að flýja.

Edwards sagðist óttast að fólk flúði ekki á tíma og ítrekaði að íbúar þyrftu að vera komnir þangað sem þeir ætla að vera fyrir hádegi í dag, að staðartíma. Louisiana mun byrja að finna fyrir Láru í kvöld.

Embættismenn hafa hvatt fólk til að gista á hótelum eða hjá ættingjum og hafa sóttvarnir í huga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×