Enski boltinn

Gæti orðið fjölmiðlasirkus á Íslandi ef Southgate velur Harry Maguire í hópinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire gæti misst fyrirliðabandið hjá Manchester United og sætið í enska landsliðinu.
Harry Maguire gæti misst fyrirliðabandið hjá Manchester United og sætið í enska landsliðinu. Getty/Alex Gottschalk

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, mun gera það opinbert í dag hvaða leikmenn verða í enska landsliðinu sem mætir til Íslands 4. september næstkomandi.

Ein af stóru spurningunum er hvort að Gareth Southgate ákveði að velja Harry Maguire í hópinn sinn eða ekki.

Það er ekki spurning um hæfileika Harry Maguire enda einn allra besti miðvörður enska landsliðsins.

Vandamálið eru aftur á mót vandræði Harry Maguire í sumarfríinu í Grikklandi þar sem hann endaði á bak við lás og slá eftir handalögmál við gríska lögreglumenn.

Gareth Southgate ætlar að velja sinn sterkasta hóp fyrir þennan langþráða landsleik enda hafa allir A-landsleikir sem áttu á vera á árinu 2020 fallið niður vegna kórónuveirufaraldursins.

Englendingar ætluðu að spila tvo æfingalandsleiki í mars, tvo í byrjun júní og taka svo þátt í Evrópukeppninni en ekkert varð af þessum leikjum. Það er því langt síðan enska landsliðið kom síðast saman sem var fyrir leiki í nóvember 2019.

Heimildir Sky Sports eru að Gareth Southgate sé að fylgjast með gangi mála hjá Harry Maguire á eyjunni Mykonos í Grikklandi. Harry Maguire hefur lýst yfir sakleysi sínu en hann var handtekinn ásamt tveimur öðrum löndum sínum eftir átök við lögregluna fyrir utan bar.

Gareth Southgate hefur tekið hart á agamálum landsliðsmanna og henti Raheem Sterling meðal annars út úr landsliðinu eftir deilur við Joe Gomez.

Það má líka búast við hálfgerðum fjölmiðlasirkus á Íslandi verði Harry Maguire með í hópnum enda hafa slúðurblöðin mikinn áhuga á vandræðum hans í Grikklandi.

Enska landsliðið ætlar að vera lengur á Íslandi en í fyrstu var búist við og því enn meiri ástæða fyrir ensku blöðin að senda sitt fólk hingað til lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×