Innlent

Eldur í íbúðarhúsi eldri borgara í Breiðholti

Vésteinn Örn Pétursson og Andri Eysteinsson skrifa
Af vettvangi.
Af vettvangi. Vísir/Aðsend

Eldur kom upp í íbúðarhúsi eldri borgara í Árskógum í Breiðholti nú fyrir stuttu. Þetta hefur fréttastofa fengið staðfest frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Einn var fluttur á slysadeild til skoðunar en er hann ekki talinn mikið slasaður.

Fréttamaður Vísis er á vettvangi. Búið er að slökkva eldinn á svölum íbúðar á þriðju hæð og er enginn eldur sjáanlegur utan frá. Viðbúnaður slökkviliðs er þó enn mikill á svæðinu. Fjórir slökkvibílar eru á vettvangi auk sjúkrabíla og lögreglu.

Slökkvistarfi að mestu lokið og engin slys á fólki

Ari Jóhannes Hauksson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að búið sé að ná tökum á eldinum.

„Við fengum fyrir skammri stundu síðan tilkynningu um eld á svölum á þriðju hæð. Það var talað um að það væri eldur í gasgrilli. Þegar við komum hérna á staðinn þá logar mikill eldur hérna á svölunum, þannig það komu allar fjórar stöðvarnar á staðinn,“ segir Ari.

Húsið hafi þá verið rýmt og verið sé að meta aðrar íbúðir í húsinu og skoða aðstæður.

Ari segir að búast megi við að miklar skemmdir hafi hlotist af eldinum. Hann hafi náð að læsa sig í klæðningu á svölunum og mögulega komist eitthvað inn í íbúðina.

„Í þessu tilfelli varð engum meint af, vona ég. En auðvitað er sárt að lenda í svona.“

Hann segir þá að nú fari að líða að því að hægt verði að senda hluta slökkviliðs á vettvangi í burtu. Reykkafari sé að meta íbúðir á efri hæðum hússins og í framhaldinu verður tekin ákvörðum um hvort og þá hvaða íbúðir þurfi að reykræsta.

Ari Jóhannes Hauksson er varðstjóri hjá slökkviliðinu.Vísir/Egill

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 18:50.

Vísir/Andri
Vísir/Andri


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×