Innlent

Sirkushundur í Þorlákshöfn sem elskar lifrarpylsu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar

Tíkin Tíbrá í Þorlákshöfn er engin venjulegur hundur því hún getur gert ótrúlegar æfingar. Hún ýtir til dæmis barnakerru, slekkkur og kveikir á ljósum, sækir sokka og fjarstýringu og rúllar sér.
Jóhanna Eyvinsdóttir lögreglumaður hjá Lögreglunni á Suðurlandi hefur alltaf haft mikinn áhuga á hundum og hefur þjálfað mikið af hundum í gegnum árin. Þær Tíbrá hafa verið að æfa sig saman við fjölbreyttar æfingar, allt til gamans gert.
„Tíbrá er af tegundinni Australian Cattledog. Ég kynntist henni í gegnum vinkonu mína, sem flutti inn tegundina, fékk hvolp frá henni. Við erum búnar að bralla ótrúlega mikið saman, bæði varðandi hundasýningar og klikker þjálfun. Ég er búin að kenna henni ýmislegt. Hún kann ótrúlegustu hluti en það er hægt að kenna hundum ótrúlega margt með þessari klikker þjálfun, þetta er algjör snilld þegar maður er komin upp á lag með að nota hana,“ segir Jóhanna.
 

Tíbrá kann meðal annars að ýta barnakerru og hefur alltaf jafn gaman af því. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Jóhanna segir mjög gaman að eiga hund eins og Tíbrá, sem er vinnusöm og alltaf tilbúin að læra eitthvað nýtt. Tíbrá fær verðlaun þegar hún gerir hlutina rétt en hennar uppáhaldsmatur er lifrarpylsa.
„Það er virkilega gaman að eiga svona sirkushund enda hef ég stundum kallað hana sirkus og ég bíð bara eftir því að hún verði kvikmyndastjarna, fái að leika í kvikmynd,“ segir Jóhanna og hlær, stolt að Tíbrá sinni.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.