Innlent

Verk­fall Eflingar í nokkrum sveitar­fé­lögum hefst á há­degi

Margrét Helga Erlingsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mætir til samningafundar hjá ríkissáttasemjara á föstudag.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, mætir til samningafundar hjá ríkissáttasemjara á föstudag. vísir/vilhelm

Verkfall rúmlega 270 félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og sveitarfélaginu Ölfusi hefst klukkan 12 á hádegi.

Um er að ræða ótímabundið verkfall en starfsmennirnir heyra undir samning Eflingar við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Starfa þeir flestir við umönnun og viðhald hjá Kópavogsbæ og Seltjarnarnesbæ að því er segir á vef Eflingar.

Efling boðar þá sem fara í verkfall á hádegi til fundar klukkan 12:30 í safnaðarheimili Digraneskirkju við Digranesveg 82 í Kópavogi.

Þegar fréttastofa náði tali af Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, var hún önnum kafin í vinnu og vildi lítið tjá sig um gang viðræðna við Reykjavíkurborg en eins og fram hefur komið var fundi frestað um þrjú leytið í nótt og verður honum fram haldið eftir hádegi.

Hún segir að Efling geri sömu kröfu um leiðréttingu lægstu launa og haldið er til streitu gagnvart Reykjavíkurborg. Sömu efnahagslegu lögmál séu sannarlega uppi í hinum sveitarfélögunum.

Samningurinn er óháður Reykjavíkurborg og í sjálfstæðu viðræðuferli en félagsmenn Eflingar sem starfa hjá borginni eru enn í ótímabundnu verkfalli. Það hófst á miðnætti þann 17. febrúar síðastliðinn.

Fundað var í þeirri deilu fram á nótt og boðað hefur verið til nýs fundar klukkan 13 í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Samkvæmt dagatali á vef sáttasemjara hefur hins vegar ekki verið boðað til fundar hjá Eflingu og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Síðasti fundur í þeirri deilu var á föstudag samkvæmt dagatali sáttasemjara.


Öllum verkfallsaðgerðum um 15 þúsund félagsmanna BSRB sem byrjuðu eða áttu að byrja á miðnætti var hefur verið aflýst.

Hver kjarasamningurinn á fætur öðrum var undirritaður í nótt og í morgun og var skrifað undir síðasta samninginn, á milli Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins, skömmu fyrir klukkan átta.

Fréttin var uppfærð klukkan 10:24 eftir að fréttastofa hafði náð tali af formanni Eflingar.


Tengdar fréttir

Samúðarverkfall Eflingar dæmt ólögmætt

Félagsdómur hefur dæmt samúðarverkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá einkareknum skólum ólögmætt. Verkfallið átti að hefjast á hádegi næstkomandi mánudag, 9. mars.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.