Fótbolti

Forseti FIFA gerði ekkert rangt segir siðanefnd sambandsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur verið sáttur með niðurstöðu siðanefndarinnar.
Gianni Infantino, forseti FIFA, hefur verið sáttur með niðurstöðu siðanefndarinnar. vísir/getty

Í lok júlímánaðar hóf sérstakur saksóknari í Sviss rannsókn á máli Gianni Infantino, forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins [FIFA]. Vísbendingar voru sagðar hafa fundist um glæpsamlegt athæfi í umdeildum samskiptum Infantino við Michael Lauber ríkissaksóknara Sviss.

Siðanefnd sambandsins hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til þess að rannsaka athæfi Infantino nánar og hefur sambandið hætt rannsókn sinni á málinu.

Í frétt Vísis um málið þann 30. júlí segir að svissnesk yfirvöld hafi skipað sérstakan saksóknara til að rannsaka samskipti Michaels Lauber, ríkissaksóknara, og Infantino.

Lauber bauðst í kjölfarið til að segja af sér eftir að dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði reynt að hylma yfir fund sem hann átti með Infantino og logið að yfirboðurum sínum þegar skrifstofa hans átti að rannsaka spillingu innan FIFA.

Infantino var kjörinn forseti FIFA árið 2016 eftir að forveri hans, Sepp Blatter, sagði af sér í skugga ásakana um víðtæka spillingu innan sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×