Íslenski boltinn

Blikar neituðu að fara fyrr til Noregs | Enn óvíst hvað bíður þeirra við heimkomu

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik er á leið í erfiðan leik við Rosenborg næsta fimmtudag. Fyrst mætir liðið Gróttu í Pepsi Max-deildinni á morgun.
Breiðablik er á leið í erfiðan leik við Rosenborg næsta fimmtudag. Fyrst mætir liðið Gróttu í Pepsi Max-deildinni á morgun. VÍSIR/BÁRA

Forráðamenn Rosenborg freistuðu þess að fá Breiðablik til Noregs tveimur dögum fyrir leik liðanna í Þrándheimi næsta fimmtudag en Blikar nýta rétt sinn til að mæta degi fyrir leik.

Einhver óvissa ríkti um leikinn, sem er í undankeppni Evrópudeildar UEFA í fótbolta, eftir að Ísland var sett á „rauðan lista“ í Noregi. Blikar fá hins vegar undanþágu frá sóttkví í landinu, enda verða þeir lokaðir af allan sinn tíma þar utan einnar æfingar og leiksins, sem fram fer fyrir luktum dyrum.

Það hentaði Blikum ekki að verða við ósk forráðamanna Rosenborg og reglur UEFA kveða ekki á um að lið þurfi að mæta á leikstað fyrr en degi fyrir leik.

„Þeir könnuðu þennan möguleika vegna þess að það tekur einhvern ákveðinn tíma að klára sýnatöku við komuna til Noregs. En það er búið að leysa það þannig að við komum bara út daginn fyrir leik,“ sagði Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Bíða þess að vita hvað gerist við heimkomu

Upphaflega gerðu Blikar reyndar ráð fyrir að fara út 25. ágúst, til að geta æft ytra þar sem það mátti ekki hér á landi, en hætt var við það og ákveðið að ferðast snemma degi fyrir leik.

Enn er óljóst hvað tekur við þegar Blikar koma heim til Íslands en vinna er í gangi við að fá úr því skorið hvort fótboltalið geti farið í svokallaða vinnusóttkví við komu til Íslands, og þannig haldið áfram æfingum, eða verið undanþegin sóttkví.

„Við fylgjumst bara með og vonum að KSÍ sé að vinna að því fyrir félögin að af þessu verði. Annars gæti það haft ansi mikil áhrif á Íslandsmótið. Auðvitað myndi maður helst vilja sleppa við sóttkví, vegna þess að við erum í raun í sóttkví úti í Noregi, og hittum bara menn sem hafa verið testaðir í bak og fyrir. En við tökum bara því sem að höndum ber,“ segir Sigurður.


Tengdar fréttir

Ísland komið á „rauðan lista“ Norðmanna

Ísland er nú komið á „rauðan lista“ norskra yfirvalda en þar er að finna ríki þar sem kórónuveirusmit eru útbreiddari og ferðamenn sem þaðan koma þurfa að sæta strangari reglum en aðrir, eða tíu daga sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×