Erlent

Tvennum sögum fer af sýkingum í Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Ríkisstarfsmenn að spreyja sótthreinsandi efni.
Ríkisstarfsmenn að spreyja sótthreinsandi efni. AP/KCNA

Tvennum sögum fer af því hvort Covid-19 kórónaveiran hafi stungið upp kollinum í Norður-Kóreu. Fjölmiðlar í Suður-Kóreu segja fréttir af því að verið sé að hylma yfir smit og jafnvel dauðsföll í einræðisríkinu en þar í landi segja yfirvöld engan hafa smitast. Jafnvel þó veiran hafi fyrst birst í Kína og minnst 204 séu sýktir í Suður-Kóreu en fjöldi þeirra tók mikið stökk í dag.

Landamærum Norður-Kóreu og Kína hefur verið lokað og hafa útlendingar verið settir í sóttkví í langan tíma.

Fjölmiðlar í Suður-Kóreu hafa haldið því fram að yfirvöld nágranna þeirra í norðri hafi hylmt yfir fjölda smita og jafnvel dauðsfalla þar í landi. Ríkið þykir ekki vel í stakk búið til að takast á við útbreiðslu veirunnar þar sem það býr ekki yfir búnaði til að greina né hlúa að fólki. Þar að auki búi ríkið ekki yfir nægjanlegum birgðum lyfja né þekkingu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segist þó ekki sitja á neinum vísbendingum um að íbúar Norður-Kóreu hafi smitast af veirunni.

Í frétt á vef KCNA, ríkismiðils Norður-Kóreu, segir að farið hafi verið í umfangsmikið fræðsluátak vegna veirunnar og að meðal annars séu heilbrigðisleiðbeiningar spilaðar í hátölurum á götum borga og bæja landsins. Sérstakir bílar sem útbúnir eru stórum hátölurum aki um landið og dreifi skilaboðunum þannig.

Allir útlendingar í Norður-Kóreu hafa verið settir í sóttkví til fyrsta mars. Washington Post vitnar í rússneskan ríkismiðil sem hefur fetir Alexander Matsegora, sendiherra Rússlands í Norður-Kóreu, að erindrekar Rússlands þar séu svo gott sem í stofufangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×