Fótbolti

Fyrirliðinn með tvö fyrir Blika og Kristinn lagði upp í fyrsta leik

Sindri Sverrisson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvö í dag. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik í síðasta mánuði.
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvö í dag. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik í síðasta mánuði. vísir/bára

Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik þegar liðið vann Aftureldingu 3-1 í Lengjubikarnum í fótbolta í Mosfellsbæ í kvöld.Höskuldur, sem hefur verið fyrirliði Blika í vetur, skoraði fyrsta mark leiksins með skalla á 4. mínútu eftir að Blikar höfðu spilað hratt fram völlinn frá eigin marki. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Viktor Karl Einarsson svo af stuttu færi eftir sendingu yfir vörn Aftureldingar, eftir langa sókn Blika.Höskuldur skoraði svo seinna mark sitt á 18. mínútu, eftir fyrirgjöf Kristins Steindórssonar frá endamörkunum. Þetta var fyrsti leikur Kristins eftir að hann sneri aftur í Kópavoginn frá FH. Afturelding náði að klóra í bakkann með skallamarki eftir aukaspyrnu, skömmu fyrir leikslok, en þar við sat.Breiðablik hefur því unnið fyrstu tvo leiki sína í 1. riðli A-deildar Lengjubikarsins, gegn Leikni R. og Aftureldingu, en Afturelding hafði gert 2-2 jafntefli við Leikni F. í fyrsta leik sínum. Blikar mæta næst ÍA eftir viku á Kópavogsvelli, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, en Afturelding mætir Leikni R. í Egilshöll.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.