Fótbolti

Fylkismenn með markaregn og Þór rúllaði yfir Grindavík

Sindri Sverrisson skrifar
Fylkismenn röðuðu inn mörkum í dag.
Fylkismenn röðuðu inn mörkum í dag. vísir/bára

Kvenna- og karlalið Fylkis unnu bæði örugga sigra í Lengjubikarnum í fótbolta í dag. Þórsarar og Vestfirðingar gerðu slíkt hið sama.

Karlalið Fylkis vann 8-1 stórsigur gegn Magna á Würth-vellinum. Arnór Gauti Ragnarsson skoraði tvö markanna en Valdimar Þór Ingimundarson, Sam Hewson, Þórður Gunnar Hafþórsson, Ólafur Ingi Skúlason og Hákon Ingi Jónsson eitt mark hver. Eitt markið var sjálfsmark Magnamanna en Alexander Ívan Bjarnason klóraði í bakkann fyrir þá með marki á 63. mínútu, þegar staðan var orðin 6-0. Fylkir er með 4 stig eftir 2 leiki í 2. riðli en Magni er án stiga.

Í A-deild kvenna eru Reykjavíkurmeistarar Fylkis með fullt hús stiga en Fylkiskonur unnu 3-0 sigur gegn bikarmeisturum Selfoss í dag. Stefanía Ragnarsdóttir, Sara Dögg Ásþórsdóttir og Bryndís Arna Níelsdóttir skoruðu mörkin en Magdalena Anna Reimus úr Selfossi fékk að líta tvö gul spjöld og svo rautt á 79. mínútu. Selfoss er án stiga eftir tvo leiki.

Í 3. riðli A-deildar karla vann Þór 5-0 sigur gegn Grindavík. Guðmundur Magnússon, sem nú er kominn með leikheimild hjá Grindavík, fékk að líta rauða spjaldið í lok fyrri hálfleiks. Þá var staðan 1-0 fyrir Þór. Fannar Daði Malmquist Gíslason og Sölvi Sverrisson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Þór og Alvaro Montejo eitt. Þórsarar eru með þrjú stig eftir tvo leiki en Grindavík án stiga.

Í 4. riðli vann Vestri 3-0 gegn Víkingi Ólafsvík. Þeir Daniel Osafo-Badu, Viktor Júlíusson og Vladimir Tufegdzic skoruðu mörkin. Vestri er því með þrjú stig eftir tvo leiki en Víkingur án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×