Innlent

Íslendingur mætti í apótek í Amsterdam og lagði byssu á borðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslendingurinn var handtekinn í Amsterdam um helgina.
Íslendingurinn var handtekinn í Amsterdam um helgina. Unsplash/Azhar J

Íslendingur á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar í Amsterdam eftir að hafa mætt vopnaður byssu í apótek í hollensku borginni um helgina.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Vísi að málið sé unnið með hollenskum yfirvöldum. Borgaraþjónustan á Íslandi er meðvituð um málið.

Samkvæmt heimildum Vísis kom karlmaðurinn inn í apótek í Amsterdam um helgina. Lagði hann þar byssu á borðið og óskaði eftir hjálp. Hélt hann því fram að hafa verið þvingaður til þess að ræna apótekið vegna fíkniefnaskuldar. Óskaði hann eftir því að lögregla yrði kölluð á svæðið.

Karl Steinar segir lögregluna í Hollandi rannsaka atburðarásina frá því um helgina. Íslendingurinn sé enn í haldi lögreglu en hann hafi ekki upplýsingar um hvort fleiri hafi verið handteknir vegna málsins.

Aðspurður hvort Íslendingurinn sé þá í haldi grunaður um tilraun til ráns, fyrst hann lagði vopnið á borðið, segir Karl Steinar málavexti óljósa og til rannsóknar hjá hollensku lögreglunni. Íslenska lögreglan liðsinni kollegum sínum ytra við rannsóknina.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.