Innlent

Íslendingur mætti í apótek í Amsterdam og lagði byssu á borðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslendingurinn var handtekinn í Amsterdam um helgina.
Íslendingurinn var handtekinn í Amsterdam um helgina. Unsplash/Azhar J

Íslendingur á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar í Amsterdam eftir að hafa mætt vopnaður byssu í apótek í hollensku borginni um helgina.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Vísi að málið sé unnið með hollenskum yfirvöldum. Borgaraþjónustan á Íslandi er meðvituð um málið.

Samkvæmt heimildum Vísis kom karlmaðurinn inn í apótek í Amsterdam um helgina. Lagði hann þar byssu á borðið og óskaði eftir hjálp. Hélt hann því fram að hafa verið þvingaður til þess að ræna apótekið vegna fíkniefnaskuldar. Óskaði hann eftir því að lögregla yrði kölluð á svæðið.

Karl Steinar segir lögregluna í Hollandi rannsaka atburðarásina frá því um helgina. Íslendingurinn sé enn í haldi lögreglu en hann hafi ekki upplýsingar um hvort fleiri hafi verið handteknir vegna málsins.

Aðspurður hvort Íslendingurinn sé þá í haldi grunaður um tilraun til ráns, fyrst hann lagði vopnið á borðið, segir Karl Steinar málavexti óljósa og til rannsóknar hjá hollensku lögreglunni. Íslenska lögreglan liðsinni kollegum sínum ytra við rannsóknina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.