Erlent

Grunur um fleiri smit íranskra valdamanna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Fleiri halda áfram að smitast af Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur. Rúm áttatíu þúsund hafa nú sýkst og um 2.700 látið lífið. Hægst hefur á dreifingunni á meginlandi Kína, þar sem flest smitin eru, en veiran heldur áfram að dreifa úr sér annars staðar. Króatía og Austurríki bættust á listann í gær.

Staðan í Íran er orðin nokkuð slæm, stjórnvöld segja að 95 hafi smitast og fimmtán látið lífið. Hassan Rouhani forseti reyndi að stappa stálinu í landsmenn í dag. Sagði að landsmenn mættu ekki láta stýrast af ótta.

Þingmaður írönsku stjórnarandstöðunnar frá borginni Qom hefur lýst efasemdum um opinberu tölurnar þar í landi og sagt að fimmtíu hafi farist í Qom einni.

Það er hins vegar ljóst að sjúkdómurinn hefur lagst á hátt setta íranska embættismenn. Iraj Harirchi, aðstoðarheilbrigðismálaráðherra sem sést hér til vinstri á blaðamannafundi í gær, staðfesti í dag að hann hafði smitast. Grunur leikur á um að hann hafi smitað manninn til hægri, Ali Rabiei, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar.

Blaðamaður NBC í Íran greindi frá þessu á Twitter og sagði að Rabiei hefði svo mögulega smitað iðnaðarráðherra landsins. Þingmaður frá höfuðborginni Teheran hefur svo sömuleiðis staðfest að hann sé veikur.

 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.