Fótbolti

Zlatan skaut fast á Inter | „Sagði hann þetta í alvöru?“

Sindri Sverrisson skrifar
Zlatan Ibrahimovic í baráttunni í Mílanóslagnum á sunnudagskvöld.
Zlatan Ibrahimovic í baráttunni í Mílanóslagnum á sunnudagskvöld. vísir/epa

Zlatan Ibrahimovic reyndi sitt besta til að kippa leikmönnum Inter strax niður á jörðina eftir að hafa tapað fyrir þeim í Mílanóslagnum í ítölsku A-deildinni í fótbolta í fyrrakvöld, 4:2.

Zlatan og félagar í AC Milan voru 2:0 yfir í hálfleik en töpuðu leiknum og þar með komst Inter upp fyrir Juventus á topp deildarinnar, nú þegar 23 umferðum af 38 er lokið, en Svíinn var ekkert að hrósa Inter fyrir að vera í þeirri stöðu:

„Hvort að Inter geti orðið ítalskur meistari? Nei,“ sagði Zlatan samkvæmt ítalska blaðinu Corriere dello Sport. „Í fyrri hálfleiknum fannst mér þeir ekki einu sinni spila eins og liðið í 2. sæti deildarinnar, en í seinni hálfleik sýndu þeir það. En þeir verða ekki meistarar,“ sagði Zlatan.

Þessi ummæli virtust koma flatt upp á Stefan de Vrij, hollenska varnarmanninn í liði Inter:

„Sagði hann þetta í alvörunni? Hvað get ég sagt? Það hafa allir rétt á sinni skoðun,“ sagði De Vrij.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×