Fótbolti

Skoraði með hendinni og komst upp með það eins og Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josh Grommen og mark Diego Maradona með hendinni á HM í Mexíkó 1986.
Josh Grommen og mark Diego Maradona með hendinni á HM í Mexíkó 1986. Samsett/Getty

Það hefur farið lítið fyrir hendi guðs á fótboltavellinum undanfarin ár en hún lét aftur á sér kræla í mikilvægum fótboltaleik á Filippseyjum á dögunum.

Margir eru búnir að bölva Varsjánni síðustu vikur á mánuði en það hefði verið betra að hafa hana til staðar í leik í Asíubikar félagsliða í knattspyrnu.

Josh Grommen skoraði eitt marka Ceres–Negros FC í Asíubikarnum með hendinni og komst upp með það.

Guardian vakti athygli á þessu og birti myndband með markinu eins og sjá má hér fyrir neðan.





Ceres–Negros FC vann leikinn 4-0 en mark Josh Grommen var fyrsta mark liðsins í leiknum og kom strax á fjórtándu mínútu.

Grommen plataði alla með því að þykjast skalla boltann niður en í endursýningunni sást að hann missti af boltanum með höfðinu en sló hann aftur á móti lúmskt inn í markið.

Leikmenn Svay Rieng frá Kambódíu mótmæltu markinu harðlega en dómararnir sáu ekkert athugavert og dæmdu markið gilt.

Josh Grommen er 23 ára gamall og fæddist rétt rúmlega tíu árum eftir að Diego Maradona skoraði með hendi guðs á HM í Mexíkó 1986. Hann er líka nýkominn til Ceres–Negros frá Sukhothai í Tælandi.

Það besta við þetta mark er að Josh Grommen er ekki beint þekktur fyrir að skora mörk. Hann spilar sem miðvörður og þetta var hans fyrsta mark í mjög langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×