Enski boltinn

Chelsea að landa Ziyech

Sindri Sverrisson skrifar
Hakim Ziyech mætti Chelsea í Meistaradeildinni fyrr í vetur.
Hakim Ziyech mætti Chelsea í Meistaradeildinni fyrr í vetur. vísir/epa

Chelsea mun hafa náð samkomulagi við Ajax um kaup á kantmanninum Hakim Ziyech sem félagið reyndi að fá þegar opið var fyrir félagaskipti í janúar.

Chelsea mun samkvæmt BBC koma til með að greiða um 38 milljónir punda, eða um 6,2 milljarða króna, fyrir þennan 26 ára gamla landsliðsmann Marokkó sem kemur til félagsins næsta sumar. Hann yrði þar með fyrsti leikmaðurinn sem Chelsea kaupir undir stjórn Frank Lampard, en félagið tók út kaupbann síðasta sumar og stundaði svo engin viðskipti í janúar.

Ziyech er uppalinn hjá Heerenveen í Hollandi þar sem hann átti í harðri samkeppni við annan efnilegan leikmann, Ingólf Sigurðsson. Ziyech, sem hefði getað kosið að spila fyrir hollenska landsliðið en valdi Marokkó, fór svo frá Heerenveen til Twente árið 2014 en hefur leikið með Ajax frá árinu 2016. Hann skoraði alls 21 mark í öllum keppnum á síðustu leiktíð, þegar Ajax sló í gegn í Meistaradeild Evrópu, en hefur gert níu í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×