Erlent

Bandamaður Macron heltist úr lestinni vegna kynlífsmyndbands

Kjartan Kjartansson skrifar
Benjamin Griveaux var áður talsmaður ríkisstjórnar Macron forseta.
Benjamin Griveaux var áður talsmaður ríkisstjórnar Macron forseta. AP/Thibault Camus

Frambjóðandi flokks Emmanuels Macron Frakklandsforseta til borgarstjóra í París hefur dregið framboð sitt til baka eftir að fregnir bárust um kynlífsmyndband sem var lekið á netið. Flokkurinn er því án frambjóðanda þegar aðeins mánuður er til kosninga.

Benjamin Griveaux hefur verið náinn bandamaður Macron forseta og var meðal annars talsmaður ríkisstjórnarinnar um tíma. Hann dró framboð sitt til baka í dag vegna þess sem hann kallaði „auðvirðilegra árása“ á einkalíf hans.

AP-fréttastofan segir að Pjotr Pavlenskíj, rússneskur listamaður sem sé þekktur fyrir pólitíska gjörninga, hafi lýst yfir ábyrgð á samfélagsmiðlafærslum sem leiddu til afsagnar Griveaux. Pavlenskíj hafi hringt í dagblaðið Liberation í gærkvöldi og sagst hafa fengið myndband af Griveaux frá ónefndum heimildarmanni sem hafi átt í sambandi við frambjóðandann.

Griveaux fullyrti í dag að hann og fjölskylda hans hefðu sætt rógi, lygum, nafnlausum árásum og morðhótunum í meira en ár. Árásirnar hafi náð nýjum lægðum með árásum fjölmiðla og á samfélagsmiðlum á einkalíf hans.

Ekki liggur fyrir hver verður frambjóðandi LREM-flokks Macron fyrir borgarstjórakosningarnar sem var fram um miðjan mars. Griveaux hlaut tilnefninguna fram yfir Cedric Villani, þingmanni sem var vísað úr flokknum í síðasta mánuði. Reuters-fréttastofan segir að ekki sé ljóst hvort að flokkurinn lýsi nú yfir stuðningi við framboð Villani.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.