Innlent

Allt á floti í Garði og íbúar aldrei séð annað eins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Allt er á floti í Garðinum.
Allt er á floti í Garðinum. Jóhann Issi Hallgrímsson

Sjógangur í morgun hefur gert það að verkum að allt er á floti í Garðinum. Sjór gengur yfir bæinn og segist Garðsbúi til þrettán ára aldrei hafa séð annað eins.

„Það er orðið allt á floti hérna. Það er bara svo mikill sjógangur, og akkurat þessi átt, svo mikið háflóð að sjórinn gengur yfir allt,“ segir Fríða Björk Elíasdóttir í samtali við Vísi.

Hún hefur búið í Garðinum síðan í júlí 2007.

„Ég hef aldrei séð þetta áður – aldrei nokkurn tímann!“

Hún segir allt hafa verið með kyrrum kjörum í morgun. Þau hjónin hafi vaknað klukkan sex út frá veðri og látum í húsinu. Þau búa í timburhúsi svo veðrið fer ekki fram hjá þeim.

„Klukkan níu var ekkert svona sjáanlegt.“

Sjórinn flæðir yfir allt í Garði. Jóhann Issi Hallgrímsson

Klukkustund síðar hafi þau orðið vör við flóð á svæðinu sem hafi svo farið stöðugt vaxandi. Hjónin hafi farið í vettvangsferð á ellefta tímanum. Í framhaldinu hafi hún fylgst með flóði inn í hagann hjá þeim, sem hafði sloppið fram að þeim tíma.

„Þetta er búið að stigmagnast síðan frá svona tíu mínútur í tíu. Það er enn svaðalegur sjógangur og farið að rigna í þokkabót. Ég veit ekki hvernig þetta endar hjá okkur.“

Þau þakka fyrir að húsið þeirra standi nokkuð hátt svo þau efast um að vatnið komi inn í húsið hjá þeim.

„Nema það fari að koma upp úr ræsinu.“

Öldugangurinn er sömuleiðis gríðarlega mikill í Reykjanesbæ. Jóhann Issi Hallgrímsson


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.