Innlent

Segist kjálka­brotinn eftir að­gerðir lög­reglu­manns

Sylvía Hall skrifar
Atvikið átti sér stað í Bankastræti um helgina. Mynd er úr safni.
Atvikið átti sér stað í Bankastræti um helgina. Mynd er úr safni. Vísir/Kolbeinn Tumi

Rúmlega tvítugur karlmaður segist líklega vera kjálkabrotinn eftir aðgerðir lögreglu í miðbæ Reykjavíkur um helgina. Lögregla segir áverkana hafa verið tilkomna áður en lögregla mæti á svæðið.

Maðurinn var að taka upp aðra handtöku þegar lögreglumaður kom upp að honum, beindi að honum piparúða og slengdi honum í jörðina, að sögn mannsins.

Maðurinn leitaði á slysadeild og birti vottorð frá lækni. Þar kom fram að brotnað hefði upp úr tönnum mannsins og gat hann ekki opnað munninn alla leið. Segir maðurinn þetta hafa gerst eftir aðgerðir lögreglumannsins.

Samkvæmt vottorðinu, sem maðurinn birti á Instagram, brotnaði upp úr sex tönnum og er maðurinn líklega kjálkabrotinn og með áverka á höku.

Fréttablaðið greindi fyrst frá en myndband af handtökunni hefur farið í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem lögreglumaðurinn skipar manninum að leggjast niður og beinir piparúðanum að honum. Atvikið átti sér stað í anddyri við Loft Hostel við Bankastræti 7.

Maðurinn kýs ekki að tjá sig um atvikið að svo stöddu í samtali við fréttamann.

Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem harðar aðgerðir lögreglumanna vekja athygli. Í janúar lýsti Atli Jasonarson háskólanemi því hvernig lögreglumaður gaf honum tvö þéttingsföst olnbogaskot í andlitið á leið niður á lögreglustöð. Atli hafði verið handtekinn eftir að hafa hringt á aðstoð fyrir eldri konu sem lá meðvitundarlaus í Austurstræti.

Uppfært klukkan 18.50

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að eftir skoðun á myndefni frá viðskiptum hins rúmlega tvítuga karlmanns og lögreglu um helgina verði ekki annað ráðið en að áverkar mannsins hafi verið tilkomnir áður en lögreglan var kölluð til.

Segir lögreglan að myndefnið staðfesti það.

Fréttin var síðast uppfærð 29. febrúar 2020.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×