Innlent

Telur meiri líkur en minni að Rio Tinto verði hér um ókomin ár

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Vísir/Vilhelm

Það er af og frá að til greina komi að Alþingi beiti sér með einhverjum hætti til að hafa áhrif á samninga um kaup álframleiðenda á raforku. Þetta segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann telur ekki líklegt að álveri Rio Tinto í Straumsvík verði lokað á næstunni, það myndi hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf.

Áhrif áliðnaðarins á íslenskt hagkerfi og efnahagslíf var til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Óli Björn segir áliðnaðinn skipta íslenskt þjóðarbú gríðarlega miklu máli. Ekki síst einstaka byggðarlög. „Bara ef við horfum á Rio Tinto, við erum að tala um að þetta séu 1250 störf. 500 störf hjá fyrirtækinu en síðan eru afleidd störf og í heild vinna hér um það bil 4100 manns, beint og óbeint, í áliðnaði,“ segir Óli Björn.

Óhagkvæmur samningur um raforkuverð er meðal þess sem Rio Tinto segir íþyngjandi fyrir starfsemina. „Það er alveg af og frá að það komi til greina að þingmenn eða þingið fari að skipta sér af samningum sem eru á milli Landsvirkjunar annars vegar og einstakra álfyrirtækja hins vegar. Hitt er svo annað mál að það sem að ég held að skipti máli og mér heyrist nú að allir séu komnir inn á það, að það á auðvitað að vera aukið gegnsæi í þeim viðskiptum,“ segir Óli Björn.

Stjórnvöld geti aftur á móti lagt sitt af mörkum til að skapa hagstæðara rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki, hvort sem það eru fyrirtæki í álframleiðslu eða annarri starfsemi. Nefnir hann í því sambandi breytingar á skattkerfinu, t.a.m. lækkun tryggingagjalds og fasteignaskatta. Sjálfur telur hann ekki líklegt að Rio Tinto hverfi af íslenskum markaði á næstunni. „Ég held að það séu nú meiri líkur en minni til þess að Rio Tinto verði hér um ókomin ár, enda hafa þeir gert hér bindandi samninga sem þeir þurfa að standa við til margra ára.“


Tengdar fréttir

Landsvirkjun tapar milljörðum á samdrætti Rio Tinto

Stjórnendur Rio Tinto í Straumsvík tilkynntu í lok janúar að fyrirtækið stefndi að því að framleiða um 184 þúsund tonn af áli í ár. Í fyrra framleiddi Rio Tinto 212 þúsund tonn af áli og því samdráttur upp á rúm þrettán prósent.

Formaður SI segir ruðningsáhrif af lokun Isal verða gríðarleg

Formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði segir stöðuna hjá Isal grafalvarlega og óttast um hag starfsmannanna. Það yrði mikið högg fyrir þá og bæjarfélagið hætti fyrirtækið starfsemi. Formaður Samtaka iðnaðarins segir að lokun Isal myndi hafa gríðarleg áhrif á fjölmörg önnur fyrirtæki og starfsmenn þeirra.

Segir að samningurinn við álverið sé sanngjarn

Forstjóri Landsvirkjunar segir að raforkusamningur við ISAL - álverið í Straumsvík sé sanngjarn fyrir báða aðila. Fleiri þættir en raforkuverðið hafi áhrif á stöðu álversins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.