Innlent

Bæjar­stjóri Hafnar­fjarðar: „Þetta er graf­alvar­legt mál“

Atli Ísleifsson skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir álverið í Straumsvík mjög mikilvægt, bæði fyrir bæinn og þjóðfélagið.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir álverið í Straumsvík mjög mikilvægt, bæði fyrir bæinn og þjóðfélagið.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir stöðuna sem upp er komin varðandi rekstur álvers Rio Tinto í Straumsvík vera grafalvarlega.

„Það gefur augaleið. Þetta er einn fjölmennasti vinnustaðurinn í bæjarfélaginu og hefur starfað hérna í áratugi og haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir allt bæjarfélagið. Ekki einungis er þetta stór og góður vinnustaður heldur hefur hann haft mikil samlegðaráhrif á öll fyrirtæki og fleira í bænum,“ segir Rósa í samtali við Vísi.

Greint var frá því í morgun að Rio Tinto skoði nú hvort álverinu verði mögulega lokað. Fyrirtækið ætli að hefja sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins svo meta megi rekstrarhæfi þess til framtíðar. Hjá álverinu starfa um 500 manns, en haldinn var starfsmannafundur í álverinu í morgun vegna málsins.

Í góðu sambandi við forsvarsmenn álversins

Rósa segist vona að málið leysist farsællega, en á þessu stigi hafi fulltrúar bæjaryfirvalda verið í góðu sambandi við forsvarsmenn álversins í Straumsvík.

„Við höfum rætt við þau í morgun og fylgjumst náið með. Á þessum tímapunkti snýst þetta augljóslega um raforkuverðið og það er á annarra höndum en okkar.“

Um 500 manns starfa í álverinu í Straumsvík.Vísir/Vilhelm

Ertu bjartsýn?

„Maður verður alltaf að vera bjartsýnn. Það þýðir ekkert annað. En við vitum svo sem að reksturinn hefur ekki gengið nógu vel í nokkur ár og þau hafa upplýst til dæmis okkur, bæjaryfirvöldum, um þá stöðu. Fyrirtækið er framsækið og hefur brugðist við því mjög vel í gegnum árin.

Nú er þá komið að þessu að það snýst um raforkuverðið og við vonum að það leysist farsællega. Þetta er mjög mikilvægt fyrirtæki, bæði fyrir bæinn og þjóðfélagið,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×