Viðskipti erlent

Starfs­fólk Isal í tvö­földu á­falli vegna mögu­legrar lokunar og kjara­samninga

Heimir Már Pétursson skrifar
Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins í Straumsvík.
Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna álversins í Straumsvík. vísir/egill

Starfsfólk Isal er slegið yfir fréttum af mögulegri lokun álversins í Straumsvík og segir áfallið tvöfalt þar sem eigendur hafi stoppað undirritun kjarasamninga. Forstjóri Isal segir álverið í Straumsvík greiða töluvert hærra verð fyrir raforkuna en önnur álver á Íslandi.

Álverið í Straumsvík hefur átt við ýmsa rekstrarörðugleika að stríða undanfarin misseri og ár sem meðal varð til þess að einum af þremur kerskálum álversins var lokað um tíma og það er ekki keyrt á fullum afköstum í dag. Á sama tíma hefur álverð hríðlækkað á heimsmarkaði, aðallega vegna mikillar framleiðsluaukningar Kínverja.

Reinhold Richter aðaltrúnaðarmaður starfsmanna segir þá hafa verið farna að gruna að ekki væri allt með felldu. Hinn 24. janúar hafi legið fyrir kjarasamningur við tæplega 400 starfsmenn sem bæði Samtök atvinnulífsins og Isal hafi viljað skrifa undir en eigandinn Rio Tinto hafi ekki gefið grænt ljós á undirskrift samninganna.

„Það er okkar staða í dag. Þannig að þetta er tvöfalt áfall. Framtíðin virðist ekki vera björt og við fáum ekki þennan samning undirritaðan,“ sagði Reinhold í í morgun en eftir hádegi boðaði ríkissáttasemjari samningsaðila til fundar hjá sér á föstudag. „Fólk er bara slegið. Við þurfum bara að sofa á þessu til að vita hvernig við eigum að bregðast við,“ sagði Reinhold en starfsmönnum var greint frá stöðunni við vaktaskipti klukkan átta í morgun.

Rannveig Rist er forstjóri ISAL - álversins í Straumsvík.vísir/egill

Rannveig Rist forstjóri Isal segir mikið hafa verið hagrætt undanfarin ár og fyrirtækið selji eftirsótta hágæða vöru sem fáir aðrir bjóði upp á. Með raforkusamningnum 2010 hafi fyrirtækið tekið þátt í endurreisninni eftir hrun en nú sé raforkuverðið orðið of hátt.

„Við teljum að okkar samningur sé talsvert mikið óhagstæðari en við aðra í landinu. Hann er líka talsvert mikið óhagstæðari en raforkusamningar sem við þekkjum í öðrum álverum,“ segir Rannveig. Tap hafi verið á rekstrinum frá árinu 2012, tíu milljarðar á síðasta ári og stefni í fjóra milljarða á þessu ári.

Rannveig segir viðræður eigendanna, Rio Tinto, við Landsvirkjun og stjórnvöld ný hafnar og því of snemmt að segja til um niðurstöður þeirra. Þær verði hins vegar að liggja fyrir um mitt þetta ár. Þá komi í ljós hvort álverinu verði lokað. Það hefði mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf, ekki hvað síst Hafnarfjarðarbæ sem hafi um hálfan milljarð í tekjur af álverinu á ári. Tilraunir til að selja verksmiðjuna hafi ekki gengið upp.

„Núna er það ekki í skoðun, heldur í skoðun að fara þá leið að gera verksmiðjuna arðbærari eða loka henni alveg eða að hluta,“ segir Rannveig Rist.


Tengdar fréttir

Boðar samninganefndir SA og starfsmanna ISAL á fund

Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefndir starfsmanna ISAL – álversins í Straumsvík og Samtaka atvinnulífsins á fund næstkomandi föstudags í ljósi tíðinda morgunsins af mögulegri lokun álversins.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.