Fótbolti

Sara Björk um að vinna Meistaradeildina: Sá stóri hefur verið markmiðið mitt í mörg ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdottir á ekki góðar miningar frá úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Wolfsburg þar sem hún meiddist mjög illa.
Sara Björk Gunnarsdottir á ekki góðar miningar frá úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Wolfsburg þar sem hún meiddist mjög illa. Getty/Boris Streubel

Sara Björk Gunnarsdóttir var í viðtali á síðu kvennaliðs Olympique Lyon í tilefni af því að úrslit Meistaradeildin eru að hefjast í vikunni.

Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar í Olympique Lyon eru þremur leikjum á níu dögum frá því að vinna Meistaradeildina en það yrði þá fimmta árið í röð sem Lyon yrði besta lið Evrópu.

Þetta er hins vegar fyrsta tímabil Söru Bjarkar með Lyon og hún hefur aldrei unnið Meistaradeildina. Næst komst hún því vorið 2018 með Wolfsborg en meiddist þá illa í úrslitaleiknum sem Lyon vann í framlengingu.

Sara Björk Gunnarsdóttir var tekin í viðtal á Twitter síðu kvennaliðs Olympique Lyon nú þegar aðeins nokkrir dagar eru í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Þetta er sá stóri. Það hefur verið markmið mitt í mörg ár að vinna hann en það hefur ekki tekist hjá mér ennþá,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir. Sara er nýbyrjuð að spila með Lyon en vann sinn fyrsta titil á dögunum þegar liðið vann franska bikarinn. Sara hefur verið mjög sigursæl á sínum ferli en vantar enn að vinna Meistaradeildina.

„Vonandi tekst mér að vinna hann í ár en það er erfiður leikur fram undan á móti Bayern München,“ sagði Sara Björk.

Lyon mætir Bayern München í átta liða úrslitunum á föstudaginn. Sara Björk ætti að þekkja Bayern stelpurnar mjög vel eftir að hafa keppt mörgum sinnum við þær á síðustu árum með liði Wolfsburg.

„Þetta verður krefjandi leikur en við höfum spilað tvo góða leiki saman og nú er bara að einbeita okkur að Meistaradeildinni,“ sagði Sara Björk á ensku en sá sem tók viðtalið þýddi það síðan yfir á frönsku eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×