Erlent

Tíma­móta­rann­sókn talin geta ger­breytt krabba­meins­með­ferðum

Eiður Þór Árnason skrifar
Þúsundir ólíkra stökkbreytinga eru nú sagðar geta leitt til krabbameins.
Þúsundir ólíkra stökkbreytinga eru nú sagðar geta leitt til krabbameins. Getty/SCIEPRO

Ný rannsókn er sögð veita skýra heildarmynd af þróun flestallra tegunda krabbameins í mannslíkamanum og geta leitt til nýrra framfara í meðferð þeirra.

Talið er að niðurstöðurnar gætu gert læknum kleift að sníða krabbameinsmeðferðir sérstaklega að æxli hvers og eins sjúklings eða hjálpað til við að þróa nýjar aðferðir til þess að greina krabbamein fyrr en áður var mögulegt.

Yfir þúsund vísindamenn tóku þátt í verkefninu sem fól í sér að greina erfðalykill alls 2.658 mismunandi tegunda krabbameins. Rannsóknarniðurstöðurnar, sem birtar voru í hinu virta vísindariti Nature í dag, eru afrakstur yfir áratugalangrar vinnu rannsóknarteyma í alls 37 löndum.

Þessi vinna hefur leitt í ljós hversu flókin fyrirbæri krabbamein geta verið en þúsundir ólíkra stökkbreytinga eru nú sagðar geta leitt til krabbameins.

Lincoln Stein, sem starfar við krabbameinsrannsóknir í Ontario í Kanada, segir að fram að þessu hafi læknar átt erfitt með að meðhöndla um þriðjung krabbameinssjúklinga í ljósi þess að ómögulegt hafi verið að greina hvers vegna frumur þeirra hófu að stökkbreytast og mynda krabbamein.

Niðurstöður þessa verkefnis benda þó til þess að það séu að meðaltali fjórar til fimm grundvallarstökkbreytingar sem knýi áfram vöxt krabbameins í líkamanum.

Með þessari uppgötvun telja sérfræðingar að hægt verði að þróa nýjar meðferðir sem ráðist sérstaklega gegn þessum tilteknu stökkbreytingum.

Þrátt fyrir þessar fregnir er ljóst að frekari rannsókna er enn þörf á þeim fimm prósentum krabbameina sem eru ekki keyrð áfram af þessum ákveðnu stökkbreytingum.


Tengdar fréttir

Alþjóða krabbameinsdagurinn: 70% dauðsfalla í þróunarríkjum

Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn – World Cancer Day – er í dag, 4. febrúar, og hefur tvíþættan tilgang, annars vegar að vekja almenning til vitundar um krabbamein og veita fræðslu og hins vegar felur hann í sér hvatningu til stjórnvalda og einstaklinga um heim allan að grípa til aðgerða gegn sjúkdómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×