Innlent

Dular­fulla húsið við höfnina sagt vera drauma­höll sveitar­stjórans

Kristján Már Unnarsson skrifar
Húsið dularfulla séð frá löndunarbryggjunni. Það hvílir utan í brekkunni og bergstálinu.
Húsið dularfulla séð frá löndunarbryggjunni. Það hvílir utan í brekkunni og bergstálinu. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Þriggja hæða hús sem rís við smábátahöfnina á Borgarfirði eystri þykir nýstárlegt í laginu miðað við hefðbundin hafnarmannvirki og vekur forvitni aðkomufólks. Það er byggt utan í brekku og að því liggja miklar tröppur að ofanverðu frá útsýnissvæði og bílastæði en einnig er hægt að ganga inn í það frá bryggjunni að neðanverðu.

Í þættinum Um land allt á Stöð 2 var sjómaðurinn Kári Borgar Ásgrímsson gripinn tali á bryggjunni við löndun. Hann var spurður hvort þessu veglega húsi væri ætlað að vera lúxus salerni fyrir sjómennina.

Kári Borgar Ásgrímsson smábátasjómaður við löndun á Borgarfirði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Þetta hefur nú verið kallað draumahöllin hans sveitarstjórans,“ svaraði Kári.

„En þetta verður bara stolt okkar, fyrir ferðamenn, og aðstaða fyrir sjómenn líka. Það er svona meiningin að það verði einhverjar veitingar á miðhæðinni og einhverjar svona upplýsingar fyrir ferðamenn.“

-Þannig að það á bæði að þjóna sjómönnum og ferðamönnum?

„Já, já. Og svo, - við eigum alveg eftir að venjast útlitinu. Þetta verður bara ljómandi laglegt hús líka,“ sagði Kári Borgar.

Séð yfir höfnina og Hafnarhólma. Húsið er neðst fyrir miðri mynd og úr því fæst góð sýn yfir hafnarsvæðið.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Eiginkonan, Helga Björg Eiríksdóttir, sagði frá fyrirtækinu sem þau hjónin keyptu í haust frá Eskifirði í þeim tilgangi að styrkja byggðina á Borgarfirði og fjölga þar störfum. Það heitir Harðfiskverkunin Sporður og framleiðir bitafisk, og bætist við nýstofnaða sængurgerð.

Hér má sjá myndskeið úr þættinum:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×