Innlent

Hefði verið ein­faldara að hitta ekki vin­konurnar

Sylvía Hall skrifar
Þórdís Kolbrún segir hópinn sem hittist í gær hafa hugað að sóttvarnareglum. 
Þórdís Kolbrún segir hópinn sem hittist í gær hafa hugað að sóttvarnareglum.  Vísir/Vilhelm

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir hafa nýtt langþráðan frídag í að hitta æskuvinkonur sínar í gær. Fréttablaðið greindi frá málinu í morgun þar sem Þórdís var sögð hafa verið á vinkonudjammi, sem hún segir ekki rétt. Hún hafi átt góðan dag en eftir á að hyggja hefði verið einfaldara að vera ekki með þeim.

Að sögn Þórdísar eyddu vinkonurnar deginum saman í miðbæ Reykjavíkur og borðuðu saman kvöldmat. Líkt og aðrir vinahópar hafi þær verið saman á borði en virt þær ráðstafanir sem gerðar voru á stöðunum.

Skjáskot af myndunum hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem fólk gagnrýnir skort á tveggja metra fjarlægðarmörkum.Skjáskot/aðsend

Hópurinn birti myndir frá deginum á Instagram þar sem þær sitja þétt saman fyrir myndatöku. Myndirnar hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og hefur ráðherrann verið gagnrýndur fyrir að huga ekki að tveggja metra reglunni.

Í samtali við Vísi segir Þórdís hópinn hafa verið mjög meðvitaðan um sóttvarnarreglur og einstaklingsbundnar smitvarnir. Þær geri sér grein fyrir því að þær búi ekki í sama húsi og þurfi að gæta að öllu slíku. 

Þórdís hefur einnig tjáð sig um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hún ítrekar að þeir staðir sem hópurinn sótti fylgdu tilmælum yfirvalda hvað varðar sóttvarnir.

„Eftir sundferð okkar fjölskyldunnar í gær eins og aðra daga hitti ég vinkonur á veitingastað í hádeginu í gær sem passaði allar reglur en við sátum saman á borði eins og vinir gera sem borða saman. Starfsfólk var með grímur og tveggja metra regla tryggð gagnvart ótengdum aðilum á staðnum,“ skrifar Þórdís. 

Þær hafi svo í kjölfarið farið í verslanir í miðbænum og gengið niður Laugaveginn. „Eins og fleiri gerðu á góðviðris degi.“

Hún segir alrangt að tala um hitting vinkvennanna sem djamm. Þær hafi borðað saman kvöldmat og Þórdís hafi sjálf verið komin heim um miðnætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×