Erlent

Segir Rússa reiðu­búna að að­stoða stjórn Hvíta-Rúss­lands

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Pútín og Lúkasjenkó í júní á þessu ári.
Pútín og Lúkasjenkó í júní á þessu ári. Alexei Nikolsky/Getty

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur lýst því yfir að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi sagst reiðubúinn að aðstoða hann við að bregðast við landlægri mótmælaöldu vegna nýafstaðinna forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi.

Síðastliðna sjö daga hafa stjórnarandstæðingar mótmælt eftir að úrslit kosninganna voru gerð ljós, en samkvæmt opinberum tölum vann Lúkasjenkó yfirburðasigur. Stjórnarandstæðingar telja hins vegar að um kosningasvindl sé að ræða. Alþjóðlegum eftirlitsaðilum var ekki leyft að fylgjast með kosningunum.

Samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar ræddi Lúkasjenkó við Pútín í gegn um síma í dag. Í kjölfarið sagði sá hvítrússneski að kollegi hans í Rússlandi væri tilbúinn að veita Hvítrússum aðstoð við að koma aftur á jafnvægi í landinu, verði þess óskað.

„Þegar kemur að hernaðarmálum erum við með samning við Rússland,“ hefur AP eftir Lúkasjenkó. Vísar hann þar til samkomulags sem ríkin tvö gerðu á tíunda áratug síðustu aldar. Þá er haft eftir honum að í aðstæðum líkum þeim sem nú eru í landinu geti hernaðarsamkomulagið átt við.

Í vikunni lést einn mótmælandi í átökum við lögreglu í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands. Lögreglan segir hann hafa haldið á sprengju sem sprakk en mótmælendur segja lögreglu hafa skotið hann til bana. Um 7.000 mótmælendur hafa verið handteknir og hefur lögreglan verið sökuð um að beita ómannúðlegum handtökuaðferðum og pyntingum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×