Erlent

Maður sak­felldur fyrir að reyna að stela Magna Carta

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rekja má þetta rit Magna Carta aftur til ársins 1215 þegar bálkurinn var samþykktur.
Rekja má þetta rit Magna Carta aftur til ársins 1215 þegar bálkurinn var samþykktur. epa/VICKIE FLORES

Maður á fimmtugsaldri var sakfelldur fyrir að hafa gert tilraun til að stela afriti af Magna Carta frá dómkirkjunni í Salisbury í Bretlandi. Magna Carta er enskur lagabálkur frá árinu 1215 sem takmarkaði völd konungs og er elsti vísir að þingræði sem til er. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Mark Royden, 47 ára gamall raðþjófur, beitti hamri til að reyna að brjóta glerkassann sem verndaði ritið en honum mistókst ætlunarverkið. Ritið umrædda er afrit af upprunalega Magna Carta bálkinum en er engu að síður 805 ára gamalt.

Brot eftir hamarhöggin sem Royden lét dynja á varnarglerinu þegar hann reyndi að stela ritinu.epa/VICKIE FLORES

Kviðdómendur við krúnudóminn í Salisbury sakfelldu hann einnig fyrir eignaspjöll. Royden sagði í samtali við lögreglu að hann tryði að ritið væri falsað.

Ránstilraunin, sem olli rúmra 2,3 milljóna króna eignartjóna, var gerð í október 2018 í miðaldarsafni kirkjunnar þar sem ritið var til sýnis. Royden var handtekinn eftir að hafa verið eltur uppi og haldið af „góðvilja“ vegfarendum.

Richard Parkes QC, dómari í málinu, sagði við kviðdómendur: „Það er kaldhæðnislegt að sá kafli Magna Carta sem verjandinn er sakaður um að reyna að stela segir að enginn frjáls maður megi vera fangelsaður nema hann sé dæmdur á lögmætan hátt af jafningjum hans.“

Hann bætti því við að Magna Carta rit dómkirkjunnar í Salisbury væri talið ósvikið og væri gríðarlega mikilvægt rit og eitt af fjórum sem væri frá árinu 1215. Hægt væri að rekja ritin fjögur aftur til fundar Jóns konungs og barónanna við Runnymede.

Royden hefur á baki sér 23 aðrar sakfellingar fyrir 51 brot, þar á meðal þjófnað og eignaspjöll. Hann varð fyrir heilaskaða þegar hann lenti í bílslysi árið 1991.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×