Erlent

Gætu fellt niður morð­á­kæru á hendur rúss­neskum systrum

Atli Ísleifsson skrifar
Mál systranna hefur vakið mikla athygli og er sagt vera skýrt dæmi um erfiða stöðu þeirra kvenna sem búa við heimilisofbeldi.
Mál systranna hefur vakið mikla athygli og er sagt vera skýrt dæmi um erfiða stöðu þeirra kvenna sem búa við heimilisofbeldi. Vísir/Getty

Verjendur þriggja rússneskra systra sem drápu föður sinn segja líklegt að ákæruvaldið muni breyta morðákæru í að um „nauðsynlega sjálfsvörn“ hafi verið að ræða.

Ákvörðun saksóknara gæti leitt til þess að málið á hendur Khachaturyan-systrunum verði fellt niður. BBC segir frá þessu.

Khachaturyan-systurnar stungu 57 ára gamlan föður sinn til bana í júlí 2018 þar sem hann lá sofandi, en systurnar voru þá sautján, átján og nítján ára gamlar. Faðirinn hafði þá beitt systurnar ofbeldi og misnotað þær kynferðislega um árabil.

Málið hefur vakið mikla athygli í Rússlandi og víðar, þar sem margir Rússar hafa hvatt til þess að málið verði fellt niður. Ekki hafi verið um einangrað tilvik varðandi ofbeldi föðurins að ræða og fá úrræði hafi verið í boði fyrir konur sem verða fyrir ofbeldi af hálfu fjölskyldumeðlims.

BBC segir frá því að rúmlega 350 þúsund manns hafi skrifað undir plagg til stuðnings systrunum og hefur málið mikið verið til umræðu í tengslum við lagabreytingar er varða viðurlög vegna heimilisofbeldis. Er búist við að hert löggjöf taki gildi í Rússlandi síðar á þessu ári.

Krestina, Angelina og Maria Khachaturyan hafa átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi vegna drápsins.

Verjandi systranna segir þær nú dvelja á ólíkum stöðum, vera frjálsar ferða sinna, en að þeim sé meinað að ræða hver við aðra, við fjölmiðla eða aðra sem málinu tengjast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×