Fótbolti

Berglind varð fyrsti Íslendingurinn til að skora fyrir AC Milan í næstum því 71 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar sigri AC Milan í dag þar sem hún skoraði tvö mörk. Til hægri er Albert Guðmundsson.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar sigri AC Milan í dag þar sem hún skoraði tvö mörk. Til hægri er Albert Guðmundsson. Getty/Emilio Andreoli

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði tvívegis í endurkomusigri AC Milan á Roma í ítölsku kvennadeildinni og þar með náði hún því sem enginn Íslendingur hafði náð í 71 ár.

Berglind Björg er fyrsti íslenski leikmaður AC Milan síðan að Albert Guðmundsson spilaði með liðinu tímabilið 1948 til 1949.

Albert skoraði tvö mörk í fjórtán deildarleikjum þetta tímabil. Það fyrra kom í 3-0 sigri á Atlanta 3. október 1948 en það síðara kom í í 5-1 sigri AC Milan á Modena 3. apríl 1949.

Í þessum sigri á Modena skoraði líka Svíinn Gunnar Nordahl en Renzo Burini var með þrennu í þeim leik. Í sigrinum á Atalanta voru hinir markaskorarar AC Milan þeir Pietro Degano og fyrirliðinn Giuseppe Antonini.

Albert skoraði fyrsta mark AC Milan á 11. mínútu á móti Atlanta en á 76. mínútu á móti Modena þegar hann kom AC Milan í 5-1. Báðir leikirnir voru spilaðir á San Siro.

Berglind Björg varð í dag fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn til að skora fyrir AC Milan síðan 3. apríl 1949 eða í 70 ár, 9 mánuði og 17 daga.

Það voru samtals liðnir meira en 849 mánuðir eða með öðrum orðum 25 þúsund og 859 dagar síðan Íslendingur skoraði síðasta fyrir þennan risaklúbb.

Albert Guðmundsson, sem var þarna 25 ára gamall, yfirgaf AC Milan eftir þetta eina tímabil þar sem liðið endaði í þriðja sæti deildarinnar. Hann fór þaðan til franska liðsins Racing Club Paris og endaði atvinnumannaferil sinn hjá Nice.

Berglind hélt upp á 28 ára afmælið sitt fyrir tveimur dögum en hún er á láni hjá AC Milan frá Breiðabliki.

Getty/Emilio Andreoli

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.