Erlent

Minnst 22 látnir eftir jarðskjálftann

Birgir Olgeirsson skrifar
Jarðskjálftinn hefur valdið gríðarlegri eyðileggingu.
Jarðskjálftinn hefur valdið gríðarlegri eyðileggingu. Vísir/getty

Minnst 22 eru látnir og rúmlega eitt þúsund slasaðir eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir austurhluta Tyrklands í gær.

Skjálftinn var að stærð 6,8 og olli mikilli eyðileggingu í bænum Sivrice þar sem byggingar hrundu og íbúar flúðu út á götur. Þrjátíu og níu hefur verið bjargað úr rústum bygginga. 20 er enn saknað og er óttast að þeir séu fastir í rústunum. Björgunarmenn hafa unnið þrotlaust að því að finna þá.

Öflugir jarðskjálftar eru nokkuð algengir í Tyrklandi. Árið 1999 fórust 17000 manns í skjálfta sem reið yfir borgina Izmit. 200 eftirskjálftar hafa mælst frá því skjálftinn öflugi reið yfir í gærkvöldi.

Rúmlega 400 björgunarmenn hafa verið sendir á vettvang og flytja þeir með sér tjöld og rúm fyrir þá sem misstu heimili sín í skjálftanum.

Einni konu var bjargað úr rústunum þrettán klukkustundum eftir að skjálftinn reið yfir. Hún hafði hringt í ættingja sína úr farsíma sínum og tjáð þeim að hún væri grafin undir rústunum.

Svæðið sem um ræðir er um 550 kílómetra austur af höfuðborginni Ankara. Um 4000 manns búa í bænum Sivrice sem er vinsæll ferðamannastaður við Hazar-vatn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×