Innlent

„Stöndum öll saman og hjálpumst að ef eitthvað gerist“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir hægt að bregðast hratt við ef til eldgoss við Svartsengi kemur. Unnið hafi verið að því að samhæfa alla viðbragðsaðila og efla vöktun á svæðinu. „Það er búið að vera með mikla samhæfingu núna eftir að vart var við þetta landris þannig að ég tel að við séum vel í stakk búin að mæta því ef eitthvað gerist,“ segir Katrín.

Katrín segir að mikilvægt nú að miðla upplýsingum um stöðuna og breytingar sem verða á henni til allra sem á þurfa.

„Það sjálfsögðu er það óhugnanlegt að búa við hliðin á eldfjalli sem getur gosið en um leið erum við með mikla vitneskju um hvernig þetta getur þróast og þess vegna einmitt legg ég áherslu á þessa upplýsingamiðlun. Ég heyrði í bæjarstjóranum í Grindavík núna fyrir íbúafundinn og ég veit að þau leggja mikla áherslu á það líka að halda öllum í bænum mjög vel upplýstum um möguleikana í stöðunni. Þannig að ég held að í þessu tilfelli eins og í öðrum þegar við náttúruna á Íslandi er að eiga þá skiptir mestu máli að muna að við erum eitt samfélag og við stöndum öll saman og hjálpumst að ef eitthvað gerist,“ segir Katrín.

Hún segir Isavia og flugrekstraraðila fylgjast vel með jarðhræringunum og þróun þeirra. Hún á þó ekki von á að miklar raskanir verði á flugi ef það fer að gjósa.

„Ég hef ekki skilið okkar vísindamenn þannig en eins og ég segi það eru þeir sem þekkja þetta best í raun og veru hver áhrifin geta orðið og hvort yfirhöfuð það kemur eldgos því þeir líka benda á það er alls ekki líklegast í stöðunni eins og hún er núna,“ segir Katrín.

Þá segir hún fylgjast vel með þróuninni á svæðinu.

„Í svona kringumstæðum gildir náttúrulega að vera í viðbragðsstöðu og halda og auka og efla vöktun eins og við erum að gera og tryggja það að ef eitthvað gerist þá séum við öll tilbúin til að bregðast við og standa saman í því,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

Bæjarstjórinn lýsir ótta og kvíða í Grindavík

Bæjarstjóri Grindavíkur segir bæði ótta og kvíða hjá íbúum vegna óvenjulegs landriss vestan við fjallið Þorbjörn í nágrenni bæjarins. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir mikilvægt að fullorðnir sem börn og unglingar fylgist vel með framvindu mála. Bakarameistarinn í bænum segir fólk skelkað en ánægt með viðbragðsaðila.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.