Erlent

Enn breiðist Wuhan-veiran út

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Stjórnvöld víða um heim halda áfram að herða aðgerðir vegna útbreiðslu hinnar svokölluðu Wuhan-veiru. Til stendur að setja breska ferðamenn í sóttkví.

Ekkert tilfelli hefur enn greinst á Bretlandi en stjórnvöld greindu frá því í dag að um 200 breskum ríkisborgurum verði flogið heim frá Wuhan, þar sem þessi nýja kórónaveira á upptök sín. Við heimkomu bíður þeirra svo tveggja vikna sóttkví, ef til vill á breskri herstöð. Fleiri ríki hafa tekið upp á því að ferja borgara heim frá Wuhan.

Til að mynda Bandaríkin, Ástralía, Japan og svo ýmis ríki innan Evrópusambandsins. Breska flugfélagið British Airways tók þá ákvörðun í dag að hætta við allar ferðir til meginlands Kína.

Eins og sjá má á þessu korti hefur veiran náð töluverðri útbreiðslu. Meðal annars til Bandaríkjanna, Frakklands og Þýskaland. Langflest tilfelli eru þó á meginlandi Kína þar sem 5.970 af 6.057 hafa greinst samkvæmt nýjustu tölum. Alls hafa 110 náð bata en 132 látið lífið.

Heilbrigðisráð Kína fór yfir stöðuna á blaðamannafundi í morgun. Sagði þar að grunur væri um rúm níu þúsund tilfelli til viðbótar. Vitað væri um 65 þúsund einstaklinga sem hefðu komist í tæri við smitaða.

Kínverskir miðlar greindu frá fundi Xi Jinping forseta með Tedros Ghebreyesus, yfirmanni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, í dag. Forsetinn sagðist þar afar viss um að Kínverjar gætu unnið þennan slag, málið væri í algjörum forgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×