Innlent

Var ósáttur með ökulag sextán ára drengs á vespu og réðst á hann

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ráðist var á 16 ára dreng í gær. 
Ráðist var á 16 ára dreng í gær.  Vísir/vilhelm

Tilkynnt var um líkamsárás í Hafnarfirði á níunda tímanum í gær. Ökumaður bifreiðar var ósáttur við akstur sextán ára drengs á vespu. Ökumaðurinn ók utan í vespuna, fór út úr bifreiðinni og tók kveikjuláslykla úr vespunni, kastaði þeim í jörðina og sló drenginn í andlitið.

Þá hafði lögregla eftirlit með veitinga- og samkomustöðum á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og var farið á um fimmtíu staði til að kanna hvernig sóttvarnaráðstöfunum væri háttað. Samkvæmt dagbók lögreglu voru margir staðir með sín mál alveg á hreinu og til fyrirmyndar. Nokkrir staðir fengu ráðleggingar um hvernig betur mætti fara.

Þá voru nokkrir staðir með allt til fyrirmyndar innandyra en þurftu að ráðast í úrbætur á útisvæðum. Tveir staðir þurftu að gera úrbætur til að tryggja að hægt væri að framfylgja tveggja metra reglunni og voru úrbæturnar gerðar á meðan lögreglan var á staðnum.

Afskipti voru höfð af konu í Kringlunni sem var grunuð um þjófnað á sjötta tímanum í gær. Við það fundust ætluð fíkniefni á konunni. Þá var tilkynnt um þjófnað í fyrirtæki í Háaleitishverfinu á sjötta tímanum. Veski var stolið frá starfsmanni sem í voru peningar, matur, lyklar, skór og fatnaður. Málið er nú til rannsóknar.

Ekið var á hjólreiðamann á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Hann var fluttur á bráðadeild til læknisskoðunar. Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Breiðholti á tíunda tímanum og er tjónvaldur talinn hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

Nóttin og gærkvöldið var mjög annasamt hjá lögreglu. Sex voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn var vistaður í fangageymslu vegna þess. Þá voru afskipti höfð af manni sem hafði tekið leigubíl úr Hafnarfirði í Breiðholt og neitað að greiða fyrir aksturinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×