Innlent

Rannsaka meint brot tveggja lyfjafræðinga

Birgir Olgeirsson skrifar

Landlæknir, Lyfjastofnun og lögreglustjórinn á Suðurnesjum rannsaka öll meint brot tveggja lyfjafræðinga. Eru þeir grunaðir um umfangsmikið lyfjamisferli sem varðar sölu lyfseðilsskyldra lyfja. Mbl.is greindi fyrst frá þessu máli. 

Málið komst upp við innra eftirlit Lyfju sem tilkynnti það til Lyfjastofnunar og kærði það til lögreglunnar á Suðurnesjum.

Málin hafa verið til rannsóknar frá því í desember og varða sölu á lyfseðilsskyldum lyfjum án lyfseðils sem lyfsölum er óheimilt. Er um að ræða lyfsala sem starfaði hjá Lyfju í Reykjanesbæ og lyfsala hjá Lyfsalanum í Glæsibæ í Reykjavík. Hefur þeim báðum verið vikið frá störfum og aðrir lyfsalar tekið við rekstri apótekanna.

Embætti landlæknis vildi ekki tjá sig við fréttastofu um rannsóknina þegar eftir því var leitað. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum er með mál lyfsalans sem starfaði hjá Lyfju í Reykjanesbæ til rannsóknar. Lögreglustjórinn vildi ekki tjá sig um málið sökum þess að rannsóknin er á viðkvæmu stigi.

Lyfjastofnun hefur mál lyfsalans í Glæsibæ til rannsóknar. Hefur Lyfjastofnun ekki kært það til lögreglunnar. Lyfjastofnun vildi þó ekki svara vegna rannsóknarhagsmuna hvort málin tengjast, sem og spurningum sem varða hvaða tegund lyfja voru seld og magnið sem um ræðir. Þá vildi Lyfjastofnun heldur ekki svara hvort brotin hefðu staðið lengi yfir.

Heimildir fréttastofu herma að málin tvö tengist og um hafi verið að ræða umtalsvert magn lyfja. Geta brotin varðað fjársektum eða fangelsisvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×