Erlent

Sendu út viðvörun um kjarnorkuslys fyrir mistök

Kjartan Kjartansson skrifar
Skokkari við Ontario-vatn með Pickering-kjarnorkuverið í baksýn. Til stóð að taka verið úr notkun í ár en því hefur verið frestað til 2024.
Skokkari við Ontario-vatn með Pickering-kjarnorkuverið í baksýn. Til stóð að taka verið úr notkun í ár en því hefur verið frestað til 2024. AP/Frank Gunn

Kanadísk yfirvöld segja að neyðarviðvörun um slys í kjarnorkuveri sem íbúar í Ontario-fylki fengu í farsíma sína í gærmorgun hafi verið send út fyrir mistök. Tvær klukkustundir liðu frá upphaflegu tilkynningunni þar til önnur var send út um að engin hætta væri á ferðum.

Í tilkynningunni frá almannavarnamiðstöð Ontario sagði að starfslið Pickering-kjarnorkuversins austan við borgina Toronto brygðist við slysi þar en að geislavirkt efni hefði ekki losnað frá verinu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Fólk þyrfti ekki að gera neyðarráðstafanir. Hún var send út til fólks sem var í innan við tíu kílómetra fjarlægð frá verinu klukkan hálf átta að staðartíma í gærmorgun.

Ontario Power Generation, fyrirtækið sem rekur kjarnorkuverið, segir að tilkynningin hafi verið send út fyrir mistök. Þau voru þó ekki leiðrétt fyrr en með öðrum skilaboðum sem voru send út þegar hátt í tveir tímar voru liðnir frá upphaflegu tilkynningunni.

AP-fréttastofan segir að tilkynningin hafi verið send út við hefðbundna æfingu almannavarna.

Dave Ryan, borgarstjóri í Pickering, segist ætla að fara fram á ítarlega rannsókn á uppákomunni. Í yfirlýsingu varadómsmálaráðherra Ontario kom fram að ráðist yrði í slíka rannsókn og að komið yrði í veg fyrir að mistök af þessu tagi yrðu endurtekin.

Skilaboðin sem voru send í síma fólks nærri Pickering-kjarnorkuverinu.AP/The Canadian Press



Fleiri fréttir

Sjá meira


×