Innlent

Vilja velta við hverjum steini vegna stöðunnar í heilbrigðiskerfinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. visir/vilhelm

Velferðarnefnd hyggst fjalla um stöðuna í heilbrigðiskerfinu á morgun en formaður nefndarinnar segir að vanmáttur ríki innan ríkisstjórnarinnar við að taka á vandanum sem þar sé til staðar. Þingflokkur Samfylkingarinnar krefst þess að ríkisstjórnin bregðist strax við því ófremdarástandi sem ríki á bráðamóttöku og öðrum deildum Landspítalans.

Í ályktun sem þingflokkur Samfylkingarinnar sendi frá sér í morgun er þungum áhyggjum lýst af stöðunni á Landspítalanum. Lýsingar á aðstæðum sjúkra- og vinnuumhverfis á bráðamóttöku og öðrum deildum spítalans að undanförnu sýni að ástandið sé þjóðinni ekki til sóma. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar, segir ljóst að neyðarástand ríki á bráðamóttökunni og víðar um heilbrigðiskerfið.

„Ég held að ástandið, þó það hafi verið slæmt lengi, þá hafi það aldrei verið jafn rosalegt eins og núna og um það vitnar starfsfólk sem að hefur auðvitað samanburðinn,“ segir Helga Vala. Hún telur að þótt reynt hafi verið að bregðast við hafi það ekki virkað sem skildi. Ekki nægi að sögn Helgu Völu að benda á það fjármagn sem sett hefur verið í byggingu nýs spítala og hjúkrunarrýma heldur þurfi að tryggja rekstrarfjármagn.

„Íslensk stjórnvöld hafa með pólitískri ákvörðun ákveðið að setja ekki nægilegt fjármagn í heilbrigðiskerfið. Þá höfum við bara samanburðartölur við önnur ríki, við öll OECD ríki, við erum undir meðaltali og eru þar á meðal fátæk ríki OECD. Við erum langt undir því sem að norðurlöndin eru að setja í heilbrigðismál,“ segir Helga Vala. 

Þá sé óásættanlegt hversu hægt gangi að ljúka kjarasamningum við fjölda heilbrigðisstétta. Staðan í heilbrigðiskerfinu verður til umræðu í velferðarnefnd í vikunni. „Við ætlum að velta við hverjum steini,“ segir Helga Vala. „Þetta er auðvitað ekki bara vandamál ríkisstjórnarinnar, við þurfum öll að koma að þessu og það er hlutverk velferðarnefndar að koma að þessu og leita lausna af því að það virðist sem að það sé vanmáttur innan ríkisstjórnarinnar að taka á þessu vandamáli.“


Tengdar fréttir

Yfirlæknir óttast stórslys á bráðamóttöku Landspítalans

Yfirlæknir smitsjúkdómalækninga hjá Landspítalanum segir að stórslys sé í uppsiglingu á bráðamóttöku spítalans verði ekkert að gert. Fjöldi inniliggjandi sjúklinga hafi þrefaldast á tveimur árum og mikill þrýstingur sé að útskrifa sjúklinga.

Vaktstjórar segja neyðarástand ríkja á bráðamóttökunni

Vaktstjórar hjúkrunar á vráðamóttöku Landspítalanum hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segja að neyðarástand ríki á bráðamóttökunni. Vaktstjórarnir sjá sig knúin til þess að lýsa yfir alvarlegum áhyggjum af ástandi deildarinnari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×