Erlent

Búa sig undir að flytja hundruð þúsundir burt vegna eldgossins

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjölskylda forðar frá næsta nágrenni Taal-eldfjallsins. Aska hefur fallið víða í kringum fjallið.
Fjölskylda forðar frá næsta nágrenni Taal-eldfjallsins. Aska hefur fallið víða í kringum fjallið. AP/Aaron Favila

Yfirvöld á Filippseyjum hafa gert áætlanir um að flytja hundruð þúsunda manna frá nágrenni Taal-eldfjallsins sem byrjaði að gjósa um helgina af ótta við enn stærra gos. Tugir þúsunda manna hafa þegar þurft að flýja heimili sín.

Aska frá Taal hefur þakið þorp í nágreninu og náð alla leið til höfuðborgarinnar Manila sem er 65 kílómetrum norðar. Hún hefur stöðvað flugsamgöngur þar og þurfti að aflýsa fleiri en fimm hundruð flugferðum á aðalflugvelli borgarinnar. Hann var opnaður að hluta til í dag eftir að öskufallinu slotaði, að sögn AP-fréttastofunnar.

Gosið hófst þegar gufa, aska og grjót þeyttist allt að 10-15 kílómetra upp í loftið frá fjallinu í gær, að mati Eldfjalla- og jarðvirknistofnunar Filippseyja. Um tveggja kílómetra háa gufusúlu leggur nú frá fjallinu og skvettist hraun frá aðalgíg þess.

Vísindamenn óttast þó að tíðir jarðskjálftar og vaxandi þrýstingur undir fjallinu gæti þýtt að hættulegt sprengigos sé í vændum. Þeir segja að rýma ætti algerlega svæði í fjórtán kílómetra radíus í kringum Taal. Næsthæsta varúðarstigi vegna eldgoss hefur verið lýst yfir.

Fleiri en tvö hundruð manns fórust þegar Taal gaus árið 1965. Það er eitt minnsta eldfjall heims en talið það annað virkasta af á þriðja tug virkra eldfjalla á Filippseyjum. Hundruð manna fórust þegar Pinatubo-eldfjallið gaus í sprengigosi árið 1991. Það var eitt stærsta eldgos 20. aldarinnar.

Aska stígur upp frá Taal-eldfjallinu á Luzon-eyju.AP/Gerrard Carreon

Tengdar fréttir

Eldgos hafið á Filippseyjum

Eldgos er hafið í eldfjallinu Taal á Filippseyjum sem er í um sjötíu kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Manila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×