Lífið

Hugur Íslendinga fyrir vestan: „Sit dofin í fjarlægðinni“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íslendingar standa þétt við bakið á Vestfirðingum.
Íslendingar standa þétt við bakið á Vestfirðingum.

Neyðarstigi var lýst yfir eftir að þrjú stór snjóflóð féllu á Vestfjörðum undir miðnætti í gær. Tvö við Flateyri, úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili, og eitt gegnt Suðureyri í Norðureyrarhlíð sem skapaði flóðbylgju sem fór inn í bæinn. Tjón varð á eignum en engin alvarleg slys á fólki svo vitað sé.

Unglingsstúlku var bjargað úr flóði á Flateyri en hún slapp án alvarlegra meiðsla eftir að hluti annars snjóflóðsins féll á heimili hennar. Var hún flutt á Ísafjörð með varðskipinu Þór, ásamt aðstandendum. Er líðan hennar eftir atvikum talin góð.

Íbúar brugðust hratt við en glögglega mátti heyra í samtölum fréttamanna fréttastofunnar við íbúa bæjarins skömmu eftir að snjóflóðin féllu að íbúum var mjög brugðið. 25 ár eru síðan tuttugu manns fórust í snjóflóði sem féll á bæinn þann 26. október 1995 og líklegt er að snjóflóðin tvö í gærkvöldi hafi ýft upp gömul sár.

Það má með sanni segja að þjóðin hafi tekið fréttum gærkvöldsins inn á sig og má sjá á samfélagsmiðlum að Íslendingar standa þétt við bakið á Vestfirðingum.

María Rut Kristinsdóttir er aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur en hún er sjálf frá Flateyri og tók fréttunum eðlilega ekki vel. 

„Sit dofin í fjarlægðinni og refresha alla fréttamiðla, þakklát fyrir að ekki fór verr en á sama tíma hrædd um fólkið mitt og þorpið mitt,“ skrifar María á Facebook.

Teitur Björn Einarsson, fyrrverandi þingmaður, er einnig frá Flateyri.

„Lífsbjörg varð á Flateyri í nótt og þá verður einhvern veginn allt viðráðanlegra. Tjónið er engu að síður svakalegt. Ljóst að Flateyringar, og nærsveitungar sem aðstoð gátu veitt, hafa þurft að standa í ströngu en sem einn unnið mikið þrekvirki og björgunarafrek. Við höfum mikið að þakka,“ skrifar Teitur á Facebook.

Fleiri frá Flateyri tjá sig um málið. 

„Fyrir okkur sem upplifðum þessa atburði fyrir 25 árum síðan er þetta eins og einhver hafi ákveðið að grípa í þig og kasta þér að öllu afli aftur til ársins 1995. Þessi tilfining er svo vond og sár að ég held að það sé mjög erfitt fyrir þá sem upplfiðu þetta ekki af eigin skinni að skilja hvernig okkur Vestfirðingum líður á svona stundu,“ skrifar Auðunn Gunnar Eiríksson.

Og fleiri Íslendingar standa þétt við bakið á fólkinu fyrir vestan. 

Hugur Áslaugar Örnu dómsmálaráðherra er einnig fyrir vestan en hún ritar: „Fjöldahjálparstöð verður sett upp á Flateyri enda mikið áfall og minnir mikið á snjóflóðið sem féll 1995. Hugur minn er hjá Flateyringum og öðrum Vestfirðingum sem og viðbragðsaðilum öllum.“

Gísli Ólafsson greinir ítarlega frá stöðunni fyrir vestan á Twitter. 


Tengdar fréttir

Vaxandi snjóflóðahætta fram að hádegi

Sérfræðingum hefur ekki enn gefist færi á að meta nákvæma stærð og umfang snjóflóðanna þriggja sem féllu á Vestfjörðum í nótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×