Innlent

Vaxandi snjóflóðahætta fram að hádegi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá Flateyri í nótt. Þar varð tjón á smábátum.
Frá Flateyri í nótt. Þar varð tjón á smábátum.

Sérfræðingum hefur ekki enn gefist færi á að meta nákvæma stærð og umfang snjóflóðanna þriggja sem féllu á Vestfjörðum í nótt. Af þeim sökum er erfitt að bera þau saman við fyrri flóð á svæðinu, til að mynda þau sem féllu um miðjan tíunda áratuginn, að sögn Tómasar Jóhannessonar hjá ofanflóðavakt Veðurstofunnar. Þó sé óhætt að fullyrða á þessari stundu að þau virðist hafa verið stór.Til stendur að senda fólk vestur með varðskipi þegar veður gengur niður, sem spár gera ráð fyrir að verði eftir hádegi. Þangað til er vaxandi snjóflóðahætta á svæðinu en þegar er búið að rýma þau hús og sveitabæi sem talið var að væru í mestri hættu. Óvissu- og hættustig vegna snjóflóðahættu hefur verið í gildi á norðanverðum Vestfjörðum og á Ísafirði undanfarna daga. Veðurstofan mun ekki endurmeta ofanflóðaspá fyrr en í birtingu.Sjá einnig: Talsvert eignatjón en engin alvarleg slys á fólki eftir þrjú „mjög stór“ snjóflóð á VestfjörðumHarpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavöktunar hjá Veðurstofunni, telur í þessu samhengi að snjóflóðavarnargarðurinn á Flateyri hafi sannað gildi sitt. Í samtali við Ríkisútvarpið segir hún að sennilega hefðu snjóflóðin náð langt niður í byggð ef hans hefði ekki notið við.Það telst óalgengt að þrjú snjóflóð af þessari stærðargráðu falli með svo skömmu millibili. Hamfarir gærkvöldsins sýni þó að það sé ekki útilokað; snjóað hafi mikið á Vestfjörðum en líka skafið lengi af fjallinu í sömu vindátt.Veðurspá næsta sólarhrings á svæðinu: Dregur hægt úr vindi um og eftir hádegi, 10-15 m/s undir kvöld (miðvikudagskvöld) á láglendi jafnt sem í fjallahæð. Samhliða minnkandi vind dregur úr ofankomu og verður orðið úrkomulítið í kvöld, miðvikudagskvöld. Aðfaranótt fimmtudags verður hæg austlæg eða breytileg átt, skýjað og úrkomulítið. Það hlýnar heldur er lægir og hiti verður um og jafnvel aðeins yfir frostmarki aðfaranótt fimmtudags og á fimmtudag.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Talsvert eignatjón en engin alvarleg slys á fólki eftir þrjú „mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum

Alls féllu þrjú "mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum undir miðnætti í gær líkt og það er orðað á vef Veðurstofu Íslands. Tvö við Flateyri, úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili, og eitt gegnt Suðureyri í Norðureyrarhlíð sem skapaði flóðbylgju sem fór inn í bæinn. Tjón hefur orðið á eignum en engin alvarleg slys á fólki svo vitað sé.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.