Innlent

Þór kemur við í Bolungarvík til að sækja fólk í áfallateymi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin var tekin af áhöfninni á Þór í nótt.
Myndin var tekin af áhöfninni á Þór í nótt. landhelgisgæslan

Varðskipið Þór lagði af stað frá Ísafirði til Flateyrar laust eftir klukkan 9 í morgun með áfallateymi og matvöru.

Að því er fram kemur í Facebook-færslu Landhelgisgæslunnar mun Þór koma við í Bolungarvík þar sem tveir úr áfallateyminu verða sóttir. Er gert ráð fyrir því að skipið verði komið til Flateyrar um klukkan ellefu.

Skipið hefur verið til taks á Ísafirði síðustu daga vegna veðursins en í nótt flutti það björgunarsveitarfólk, lækni og lögreglumenn til Flateyrar sem voru ferjaðir í land með léttbátum skipsins í nótt.

Þór flutti unglingsstúlku sem lenti í öðru snjóflóðanna á Flateyri í gærkvöldi frá bænum til Ísafjarðar. Með í för var móðir stúlkunnar, Anna S. Sigurðardóttir, sem segir á Facebook-síðu sinni að þær mæðgur hafi farið á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Hún hafi farið í betri bátsferðir en hún hefði ekki viljað sigla með öðru skipi. Dóttir hennar sé 100% í lagi, aðeins með nokkrar skrámur. Anna segir þetta þvílíkt kraftaverk enda var dóttir hennar grafin undir snjónum í 40 mínútur.

Kveðst hún ævinlega þakklát björgunarsveitinni á Flateyri fyrir snör handtök við að grafa dóttur hennar upp úr snjónum. Nú ætli þær mæðgur að hvíla sig eftir átök næturinnar.


Tengdar fréttir

Talsvert eignatjón en engin alvarleg slys á fólki eftir þrjú „mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum

Alls féllu þrjú "mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum undir miðnætti í gær líkt og það er orðað á vef Veðurstofu Íslands. Tvö við Flateyri, úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili, og eitt gegnt Suðureyri í Norðureyrarhlíð sem skapaði flóðbylgju sem fór inn í bæinn. Tjón hefur orðið á eignum en engin alvarleg slys á fólki svo vitað sé.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.