Innlent

Ómar segir varnar­garðana hafa sannað gildi sitt í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Skýringarmynd sem sýnir hvar snjóflóðin tvö féllu við Flateyri í gærkvöldi.
Skýringarmynd sem sýnir hvar snjóflóðin tvö féllu við Flateyri í gærkvöldi. VÍSIR/hjalti

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og fyrrverandi fréttamaður, segir að snjóflóðavarnargarðarnir á Flateyri hafi sannað gildi sitt í gærkvöldi þar sem þeir bægðu stóru snjóflóði frá byggðinni.

Þetta segir Ómar í færslu á bloggsíðu sinni. Hann segir að það hafi verið happ að enginn hafi verið á ferli þar sem flóðið fór í sjó fram.

Alls féllu þrjú stór snjóflóð á Vestfjörðum undir miðnætti í gærkvöldi – tvö við Flateyri, úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili, og eitt gegnt Suðureyri í Norðureyrarhlíð sem skapaði flóðbylgju sem fór inn í bæinn. Tjón hefur orðið á eignum en ekki er vitað um alvarleg slys á fólki.

„Þegar varnarmannvirki virðast vera að sanna sig núna, verður þó að geta þess, að enn, eftir aldarfjórðung, er talsvert eftir ógert af fyrirhuguðum aðgerðum, og er ljóst að nú verður að ganga í það að klára þær sem fyrst,“ segir Ómar.

Í færslunni rifjar hann upp að farið hafi verið að huga fyrir alvöru að snjóflóðavörnum eftir flóðin stóru á Vestfjörðum 1994 og 1995. Þau hafi alls verið fimm – það fyrsta á Seljalandsdal og Tungudal Dýrafirði 1994, þau mannskæðustu á Súðavík í janúar og Flateyri í október 1995, auk þess sem stærsta snjóflóðið féll á óbyggt svæði innst í Dýrafirði í sama óveðri og olli flóðinu á Flateyri. Auk þess féll snjóflóð í Reykhólasveit í sama óveðri. Í heildina fórust 37 manns í fjórum af fimm þessara snjóflóða.

Eftir snjóflóð í Bolungarvík 1996 komst verulegur skriður á öryggismál á þessu sviði og hafa snjóflóðavarnir verið settar upp víða um land síðan. Hann segir þó nokkuð verk óunnið og ljóst að ganga verði í það verk sem fyrst.


Tengdar fréttir

Talsvert eignatjón en engin alvarleg slys á fólki eftir þrjú „mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum

Alls féllu þrjú "mjög stór“ snjóflóð á Vestfjörðum undir miðnætti í gær líkt og það er orðað á vef Veðurstofu Íslands. Tvö við Flateyri, úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili, og eitt gegnt Suðureyri í Norðureyrarhlíð sem skapaði flóðbylgju sem fór inn í bæinn. Tjón hefur orðið á eignum en engin alvarleg slys á fólki svo vitað sé.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.