Innlent

Mikil áfallahjálp framundan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fyrstu léttbátarnir komu að landi á Flateyri upp úr klukkan tvö í dag með mannskap og vistir.
Fyrstu léttbátarnir komu að landi á Flateyri upp úr klukkan tvö í dag með mannskap og vistir. Landhelgisgæslan

Mikil áfallahjálp er framundan í fjöldahjálparstöðum á Flateyri, Suðureyri og Ísafirði vegna snjóflóðanna sem féllu á Vestfjörðum undir miðnætti í gær. Sjálfboðaliðar Rauða krossins og aðrir viðbragðsaðilar taka þar á móti fólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín og veita auk þess öllum sem vilja sálrænan stuðning. Tugir hafa nýtt sér þjónustu hjálparstöðvanna í dag.

Lýst var yfir neyðarstigi í dag vegna snjóflóðanna á Flateyri og við Suðureyri sem féllu á tólfta tímanum í gærkvöldi. Tvö snjóflóð féllu á og við Flateyri og stúlka grófst undir öðru þeirra en var bjargað heilli á húfi.

Brynhildur Bolladóttir

Brynhildur Bolladóttir upplýsingafulltrúi Rauða krossins segir í samtali við Vísi að þrjár fjöldahjálparstöðvar hafi verið opnaðar vegna snjóflóðanna: í Kiwanis-húsinu á Ísafirði, Fisherman á Suðureyri og í grunnskólanum á Flateyri.

„Í þeim öllum er tekið á móti fólki sem hefur þurft að yfirgefa húsin sín þannig að fólk getur fengið gistingu. En það er líka sálrænn stuðningur í boði á öllum stöðum,“ segir Brynhildur.

„Við höfum fundið fyrir því að þetta ýfir upp gömul sár þó að allt hafi farið vel, nokkurn veginn. Þannig að þetta er í boði en fólk bregst auðvitað mismunandi við.“

Um fimmtán manns höfðu nýtt sér þjónustuna á Flateyri nú síðdegis. „Og þetta er mest þannig að fólk er að spjalla en sjálfboðaliðarnir hlusta ef þarf og segja fólki við hverju á að búast.“

Þá höfðu um 45 manns leitað í fjöldahjálparstöðina á Ísafirði í morgun en um fimmleytið nú síðdegis var 31 staddur í stöðinni. Níu voru á sama tíma á Suðureyri.

Varðskipið Þór er statt á Flateyri og þá verður þyrla Landhelgisgæslunnar send vestur í sjúkraflug og með björgunarsveitarfólk frá Reykjavík seinna í kvöld. Íbúar á Suðureyri hafa jafnframt verið beðnir um að vera ekki á ferli utandyra á svæðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×