Innlent

Hótaði að drepa nágranna sína

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Breiðholt í vetrarham.
Breiðholt í vetrarham. vísir/vilhelm

Þrír voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna ofbeldisbrota. Óskað var eftir aðstoð lögreglu á ellefta tímanum í gærkvöld vegna manns í annarlegu ástandi sem hótaði að drepa nágranna sína í fjölbýlishúsi í Breiðholti. Í skeyti lögreglu segir að maðurinn hafi verið handtekinn og hann vistaður í fangageymslu.

Fyrr um kvöldið hafði verið tilkynnt um líkamsárás í Árbæ, þar veittist ölvaður maður að ökumanni sem hafði gert athugasemd við að hinn ölvaði stæði úti á miðri götu og truflaði umferð. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar í nágrenninu en hann hafði reynt að fela sig í nærliggjandi atvinnuhúsnæði. Sá fékk einnig að gista á Hverfisgötunni. Áverkar ökumannsins eru sagðir minniháttar. 

Sá þriðji var síðan handtekinn um klukkan eitt í nótt. Þar var um að ræða karlmann á þrítugsaldri sem staðinn var að verki af almennum borgara við að brjótast inn í bíla. Þjófurinn ógnaði vitninu með hnífi en var handtekinn skömmu síðar. Við leit á honum fundust meint fíkniefni, þýfi og hnúajárn að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×