Innlent

Hin látnu kín­verskir náms­menn bú­settir í Bret­landi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Flugvélarflakið á Sólheimasandi.
Flugvélarflakið á Sólheimasandi. Vísir/Vilhelm

Ung kona og maður sem fundust látin á Sólheimasandi í gær voru bæði námsmenn í Bretlandi. Fjölskyldum þeirra hefur verið tilkynnt um andlátin og eru á leiðinni til Íslands. 

Það var vegfarandi sem tilkynnti lögreglunni í gær að hann hefði gengið fram á lík ungrar konu rétt hjá flugvélarflakinu á Sólheimasandi. Nokkru síðar fannst svo lík ungs manns skammt frá en aðeins um 150 metrar voru á milli líkanna.

Lögreglan hóf strax rannsókn en grunur leikur á að fólkið hafi orðið úti. Aftakaveður var á svæðinu á mánudag og þriðjudag.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi segir rannsókn í fullum gangi. Ekki hafi nein tilkynning borist um að fólksins væri saknað áður en lík þeirra fundust.

„Þau fara fram hjá myndavél á Hvolsvelli rétt fyrir klukkan þrjú á mánudegi. Þau eru tiltölulega nýkomin til landsins og áttu ekki að skila bílaleigubílnum fyrr en í gær. Þannig að það var enginn farinn að sakna þeirra,“ segir Oddur.

Líkin fundust skammt frá göngustíg að flugvélarflakinu á sandinum.VÍSIR/LANDMÆLINGAR

Samkvæmt upplýsingum  frá kínverska sendiráðinu var konan tvítug en maðurinn 22 ára. Þau voru vinir og bæði búsett í Bretlandi þar sem þau stunduðu nám. Fjölskyldum þeirra hefur verið tilkynnt um andlátin og eru þær á leið til Íslands.

Oddur segir engar upplýsingar liggja fyrir á þessari stundu hvort að þau hafi átt bókaða gistingu einhvers staðar. Hann segir að svo virðist sem að fólkið hafi orðið úti og ofkælst. Krufning þurfi þó að fara fram svo hægt sé að úrskurða um dánarorsök.  „Við vitum það að þessar veðurfarsaðstæður sem að skapast þarna á mánudagskvöld og þriðjudag að þær eru lífshættulegar á mjög skömmum tíma,“ segir Oddur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.