Innlent

Tvö lík fundust á Sólheimasandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að vísbendingar séu um að um par sé að ræða sem hafi ferðast saman. Sendiráð ríkis þeirra hefur verið upplýst um stöðuna.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að vísbendingar séu um að um par sé að ræða sem hafi ferðast saman. Sendiráð ríkis þeirra hefur verið upplýst um stöðuna. Vísir/Landmælingar

Tvö lík hafa fundist á Sólheimasandi. Tilkynning um lík konu barst til Lögreglunnar á Suðurlandi skömmu fyrir hádegi í dag. Hún fannst skammt frá göngustíg að flugvélarflakinu á sandinum.

Lík karlmanns fannst svo klukkan tvö, skammt frá þeim stað sem konan fannst. Dánarorsök liggur ekki fyrir og verður hún ekki ljós fyrr en að lokinni krufningu.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að vísbendingar séu um að um par sé að ræða sem hafi ferðast saman. Sendiráð ríkis þeirra hefur verið upplýst um stöðuna.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er talið líklegt að ferðamennirnir hafi orðið úti.

Bílaleigubíll fannst á bílastæði við Sólheimasand og er vitað að hann fór um Hvolsvöll á austurleið skömmu fyrir þrjú á mánudaginn, 13. janúar. Samkvæmt heimildum Vísis voru rúður brotnar í bílnum þegar hann fannst.

Mjög slæmt veður var á landinu á mánudaginn.

Tæknideildar- og rannsóknarlögreglumenn eru við vinnu á vettvangi og mun lögreglan ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Flugvélarflakið á Sólheimasandi.vísir/vilhelmFleiri fréttir

Sjá meira


×