Innlent

Snjórinn fór í gegnum allt húsið og reif með sér alla milli­veggi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Karl Hjálmarsson við húsið við Ólafstún 14 sem fór illa í snjóflóði á þriðjudagskvöld.
Karl Hjálmarsson við húsið við Ólafstún 14 sem fór illa í snjóflóði á þriðjudagskvöld. vísir/egill

Karl Hjálmarsson, eigandi hússins við Ólafstún 14 á Flateyri sem varð fyrir öðru af tveimur snjóflóðum sem féllu í bænum á þriðjudagskvöld, segir að það hafi ekki verið góð tilfinning að fá fregnir af því að snjóflóð hafi fallið á húsið.

„Af því að maður vissi ekkert og maður byrjaði að leita sér frétta og fyrstu fréttir bentu til þess að það væri frekar bara vægt. Svo kom nú reyndar allt annað á daginn og þetta var náttúrulega miklu, miklu kraftmeira en fólk hélt í byrjun,“ sagði Karl í samtali við Jóhann K. Jóhannsson, fréttamann, á Flateyri í dag.

Karl kom til Flateyrar í gær til þess að taka út aðstæður.

„Þetta lítur ekki vel út en eins og ég segi, það er náttúrulega bara guðs mildi og lífsins lán að hér varð ekki manntjón því hér hefur snjórinn farið í gegnum allt húsið og rifið með sér alla milliveggi og krafturinn þvílíkur að það er eiginlega bara kraftverk að fólkið í húsinu hafi bjargast,“ sagði Karl.

Þessi mynd var tekin inni í húsinu í dag.vísir/egill

Alma Sóley Ericsdóttir Wolf, 14 ára gömul, býr í húsinu ásamt móður sinni, systkinum og tveimur kisum. Hún grófst undir flóðinu en var bjargað eftir um 35 mínútur í snjónum og slapp með skrámur. Móðir hennar hefur líka lýst því sem kraftaverki að ekki hafi farið verr.

Aðspurður um framhaldið og hvort hann ætli að byggja húsið aftur upp sagði Karl það kannski ekki alveg í hans höndum.

„Hér koma alls konar aðilar að og þetta verður bara skoðað í framhaldi. Mér þykir náttúrulega mjög vænt um þetta hús og myndi vilja eiga þetta hús áfram. Ég keypti það til þess að eiga það og njóta góðra stunda. Við verðum bara að sjá hvað tíminn leiðir í ljós,“ sagði Karl.

Viðtalið við hann í heild má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Kisurnar í Ólafstúni 14 heilar á húfi

Eyþór Jóvinsson, íbúi á Flateyri og eigandi bókabúðarinnar í bænum, birti fallega mynd af sér á Facebook-síðu bókabúðarinnar í dag þar sem hann heldur á öðrum heimiliskettinum í Ólafstúni 14 sem varð fyrir snjóflóðinu sem féll á þriðjudagskvöld.

„Þetta eru bara dauðir hlutir og stelpan bjargaðist“

"Maður heyrir að þetta er ónáttúrulegt hljóð. Maður er ekki vanur þessu hljóði sem kemur þarna,“ segir Magnús Einar Magnússon, formaður Sæbjargar á Flateyri, um það hvernig hann varð var við fyrra snjóflóðið í vikunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.